Stefán Árnason fer yfir komandi umspil

Handbolti
Stefán Árnason fer yfir komandi umspil
Stefán segir sínum mönnum til í leik í vetur

Handboltinn heldur áfram á laugardaginn þegar KA tekur á móti annaðhvort Þrótti eða HK í umspili um laust sæti í efstu deild að ári. Þróttur og HK mætast í oddaleik í kvöld um hvort liðið fer áfram og mætir KA. Stefán Árnason þjálfari KA var á dögunum í viðtali hjá Vikudegi þar sem hann fór yfir stöðuna og þökkum við Vikudegi fyrir að leyfa okkur að birta það hér á síðunni okkar.

Teljum okkur eiga heima í efstu deild

KA fer í umspil um sæti í úrvalsdeild karla í handbolta síðar í mánuðinum en þar mæta norðanmenn annaðhvort HK eða Þrótti og verður KA með heimaleikjarétt í þeirri rimmu.

Það gæti vegið þungt þar sem mikil stemning hefur verið á heimalikjum KA í vetur og þeir vel studdir af stuðningsmönnum. KA hafnaði í öðru sæti deildarinnar með 30 stig, tveimur stigum á eftir Akureyri en liðið tapaði þremur leikjum af 18 í vetur. Vikudagur ræddi við Stefán Árnason þjálfara KA um gengið í vetur og rýndi í umspilið sem framundan er.

"Ég er þokkalega sáttur með veturinn og hvernig þetta hefur þróast hjá okkur. Við renndum mjög blint í sjóinn með þetta þegar KA ákvað að senda lið til leiks í vetur. Við vissum ekkert hvernig liðið yrði en lögðum upp með ákveðna þætti sem við vildum fá á þessu fyrsta tímabili, m.a. að liðið yrði lið KA-manna og fá stuðningsmennina með og fólk á völlinn," segir Stefán.

"Við vissum ekkert hvernig gengið myndi vera í deildinni og vildum byrja á réttum enda og búa til undristöðu sem væri hægt að byggja á næstu árin. Þetta skref sem KA tók var fyrst og fremst hugsað til framtíðar og við erum ekkert að vænta þess að sjá stóran árangur strax. Þess vegna er ennþá mikilvægara að skapa eitthvað til að byggja á á næstu árum því lið án fólksins hefur ekkert bakland og fer ekki langt," segir Stefán.

"Fólkið hefur tekið þátt í þessu með okkur"

Mikil stemning hefur verið á heimaleikjum liðsins í vetur í KA-heimilinu og þykir minna á gullaldarár KA í handboltanum.

"Við erum ótrúlega glaðir með hvað vel hefur tekist til með að búa til góða umgjörð og öflugan heimavöll. Maður finnur hvað hinn almenni KA-maður er ánægður með að fá handboltann aftur. Það kom mér eilítið á óvart að það var fólk sem hafði enga sérstaka tengingu í handboltann en var samt himinlifandi með að fá handboltann aftur í félagið. Því var meiri eftirspurn eftir þessu heldur en margir héldu.

Að því leytinu til erum við vissir um að hafa tekið rétt skref og fólkið hefur tekið þátt í þessu með okkur og við höfum verið að fá 500-600 manns í húsið. Þetta er að miklu leyti vegna þess að liðið er byggt á KA-mönnum í grunninn. Við fengum tvo erlenda leikmenn í sumar, markmann og örvhenta skyttu en aðrir leikmenn eru KA-menn á öllum aldri."

Áskorun að halda mönnum á tánum

Stefán segir KA stefna á að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni. "Við teljum okkur eiga heima í efstu deild og stefnum á að fara í gegnum þetta umspil. Eins og veturinn hefur spilast eigum við fullt erindi þangað og teljum okkur hafa bætt liðið heilmikið í vetur," segir Stefán.

Óvíst er hvort liðið mætir HK eða Þrótti og fyrsti leikurinn í umspilinu hjá KA verður ekki fyrr en laugardaginn 21. apríl. Stefán segir mikla áskorun að halda mönnum við efnið þangað til og ekki skipta höfuðmáli hvoru liðinu það mætir í umspilinu.

"Það er erfitt að lesa í það hvort liðið við viljum fá, HK eða Þrótt. Þetta eru mjög áþekk lið og hafa hvort sína styrkleika. En það gengur vel að undirbúa liðið og ég fann það strax þegar deildarkeppninni lauk að leikmenn voru tilbúnir í næsta skref og eru einbeittir. En auðvitað er skrýtin og sérstök staða að þurfa að bíða í rúmar fjórar vikur eftir næsta leik og þar er erfitt. Það er áskorun að halda mönnum á tánum. Við þurfum að halda vel á okkar spilum en mér sýnist leikmenn vera klárir. Æfingarnar eru mjög góðar miðað við hvað það er langt í næsta leik," segir Stefán.

Töfrar í KA-heimilinu

Stefán segir að heimaleikjarétturinn geti vegið þungt fyrir KA-menn. "Það gefur okkur sjálfstraust inn í einvígið að hafa KA-heimilið. Við höfum ekki tapað leik þar í vetur og höfum komist að því að það eru ákveðnir töfrar í þessu húsi. Stundum höfum við verið 2-3 mörkum undir þegar lítið er eftir af leiknum en náð að snúa leiknum okkur í hag. Stuðningsmennirnir koma þá með og hvetja okkur áfram og þá fara hin liðin á taugum. Þannig að það eru töfrar í húsinu og ég held að það skili okkur miklu að hafa stuðninginn í bakið," segir Stefán.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is