U-20 endaði í 10. sæti á HM

Handbolti
U-20 endaði í 10. sæti á HM
10. sæti á HM er frábær árangur

U-20 ára kvennalandslið Íslands lék í dag lokaleik sinn á HM í Ungverjalandi er liðið mætti Króatíu í leik um 9. sætið á mótinu. Stelpurnar mættu sterku liði Noregs í 16-liða úrslitum keppninnar í gær í svakalegum leik. KA/Þór átti tvo fulltrúa í hópnum en það voru þær Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir.

Íslenska liðið hóf leikinn gegn Norðmönnum af miklum krafti og komust meðal annars í 7-4. Norska liðið náði hinsvegar að koma sér betur inn í leikinn og þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn 15-15. Síðari hálfleikurinn var svo stál í stál en Norsku stelpurnar leiddu og undir lokin tókst þeim að gefa í og vinna 30-35 sigur sem var full stór miðað við hvernig leikurinn hafði spilast.

Annað var uppi á teningunum í dag þegar stelpurnar mættu Króatíu, liðið byrjaði leikinn illa og lenti 1-5 undir. Króatísku stelpurnar héldu svo áfram að bæta við forskotið og náðu meðal annars 8 marka forystu í fyrri hálfleiknum, en hálfleikstölur voru svo 11-17. Síðari hálfleikurinn var svo í raun bara formsatriði og lítil spenna í leiknum. Lokatölur urðu 36-23 og svekkjandi endir á mótinu eftir að liðið hafði staðið sig virkilega vel.

Bætingin hjá þessu landsliði hefur verið gríðarleg á síðustu árum en fyrir 3 árum voru stelpurnar fyrsta landslið Íslands í handbolta til að tapa gegn Færeyjum og ná núna 10. sæti á HM. Það verður því áfram gaman að fylgjast með stelpunum og sjá hvað þær ná að afreka í framtíðinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is