Æfðu eins og KA-maður!

Fótbolti
Æfðu eins og KA-maður!
Kynntu þér plön Óla Stefáns! (mynd: Sævar Geir)

Knattspyrnufélag Akureyrar hélt nýverið uppá 92 ára afmælið sitt og hafa margir slagir verið teknir síðan okkar ágæta félag var stofnað. En þessi leikur sem er í gangi núna er án alls efa sá stærsti sem KA hefur tekið þátt í og sá allra mikilvægasti.

Mótherjinn okkar er ekki eitthvað sem við höfum mætt áður, hvorki í Íslandsmóti eða æfingaleik. En við látum það ekki stoppa okkur, við höfum unnið óþekkta mótherja áður.

Útbreiðsla kórónaveirunnar byrjaði í Wuhan í Hubeihéraði, Kína í desember 2019. Í byrjun árs 2020 hefur vírusinn dreift sér um allan heim og þar á meðal til Íslands. Útbreiðslan hefur haft stór áhrif á allt landið og samfélagið okkar, þar með talið okkur hjá Knattspyrnudeild KA.

Íslandsmótinu hefur verið frestað, öllum æfingum aflýst og við treystum á að allir liðsmenn, í öllum flokkum sjái vel um sig sjálf og gefi sig 100% í þetta verkefni sem við erum öll saman í.

Þjálfarateymið okkar í þessum leik við Covid-19 er vel mannað af fólki sem við treystum alfarið fyrir skipulagningu, uppleggi og hvernig skal koma í veg fyrir áframhaldandi dreifingu veirunnar. Við leikmennirnir (allir KA-menn) fylgjum öllum fyrirmælum til hins ítrasta svo að sigur vinnist í þessum leik sem mun vara lengur en þessar hefðbundu 90 mínútur sem við þekkjum. Hversu lengi vitum við þó ekki. Dagar, vikur, jafnvel mánuðir. Aðeins sigur er nógu gott fyrir okkur!

Óli Stefán og hans þjálfarateymi hafa sett saman æfingaáætlun fyrir sitt lið á meðan engar æfingar eru leyfðar og þeir vilja deila því með okkar frábæra fólki svo að allir geti æft eins og KA-menn og tekið þennan slag í sameiningu. Þegar sigurinn er unninn og stormurinn genginn yfir, þegar sólin er farinn að skína og grasið að grænka, þegar það styttist óðfluga í fyrsta leik okkar í Pepsi Max deildinni 2020 þá ætlum við öll að vera í algeru toppstandi frá haus og niður í tær.

Smelltu hér til að nálgast tilmæli Óla Stefáns og þjálfarateymis KA

KA menn, vinnum leikinn saman!!!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband