Bose mótið gert upp af þjálfarateymi KA

Fótbolti
Bose mótið gert upp af þjálfarateymi KA
KA endaði í 3. sæti riðilsins (mynd Þórir Tryggva)

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu tók þátt í Bose mótinu núna í nóvember og spiluðu þeir 3 leiki á Höfuðborgarsvæðinu 3 helgar í röð. Þetta er í fyrsta skipti sem KA tekur þátt í þessu móti en við unnum okkur rétt til þess með því að lenda í 5. sæti Pepsi Max deildarinnar í sumar.

Undirbúningur fyrir leikina var ekki alveg með eðlilegu móti þar sem menn lögðu yfirleitt af stað á leikdegi seint um nótt, voru komnir á leikstað rétt fyrir leik og spiluðu svo í mislágu hitastigi en alltaf við toppaðstæður. Ákveðið var í byrjun að eldri leikmenn liðsins spiluðu aðeins einn til tvo leiki þannig að þetta mót yrði mikið notað til að gefa ungum og spennandi leikmönnum okkar tækifæri, prufa leikmenn í öðrum stöðum en þeir eru vanir. Einnig var þetta góður vettvangur til að skoða leikmenn sem hugsanlega geta samið við okkur í vetur.

Við vorum í riðli með Breiðablik, Stjörnunni og Val, varla hægt að velja skemmtilegra mótherja til að byrja þetta undirbúniningstímabil.

Fyrsti leikur okkar var á Kópavogvelli gegn Blikum og unnum þar 3-2 eftir að hafa lent undir snemma leiks. Mörkin okkar skoruðu Elfar Árni x2 og Gunnar Örvar sem hefur verið að æfa með okkur í vetur.

Næst héldum við í Garðabæinn og spiluðum við Stjörnuna á Samsung vellinum, þeim leik töpuðum við 4-1 eftir jafnan og skemmtilegan leik framan af. Mark okkar skoraði Nökkvi Þeyr.

Síðasti leikur mótsins var svo gegn Val á Origo vellinum. Við vorum þarna enn í möguleika á að komast í úrslitaleik mótsins. Það gekk því miður ekki upp þar sem við lágum í valnum 2-0.

Vert er að minnast á höfðinglegar móttökur þeirra Valsmanna. Eftir leik buðu þeir okkur í sannkallað jólahlaðborð með öllu tilheyrandi þvi ekki vildu þeir senda norðan gesti svanga heim. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Liðin sem við mættum stilltu oftar en ekki upp mjög sterkum liðum og var það mjög jákvætt fyrir okkur þó svo að við höfum farið í þetta mót á öðrum grundvelli. Sem dæmi voru 8 af 10 útileikmönnum Breiðabliks sem byrjuðu síðasta leik í Pepsi Max í sumar fyrir þá. Sömu sögu má segja um hina andstæðinga okkar en sem dæmi er gaman að skoða byrjunarliðin hjá okkur og Val. Þar eiga okkar menn samtals 1152 leiki í efstu 2 deildum á Íslandi og erlendis á móti 1817 leikjum hjá byrjunarliði Vals.

Mikil ánægja var með að hafa tekið þátt í þessu verkefni og flott að henda ungum strákum í djúpu laugina og máta þá gegn bestu liðum og leikmönnum landsins. Þar fengum við mikið af svörum sem hjálpa okkur gríðarlega í framhaldinu.

Leikfræðilega var margt prufað. Við settum upp nokkrar útfærslur af sóknar og varnarleik. Þar fengum við margt til að vinna með í framhaldinu. Eitt af því sem við fengum vísbendingar um var hversu mikið af mörkunum sem við fengum á okkur voru úr föstum leikatriðum, eða fimm af átta mörkum. Við lögðum litla áherslu á þann þátt fyrir mótið en engu að síður verður að skoða það og vinna betur í því.

Næsta verkefni hjá meistaraflokki karla í knattspyrnu er Kjarnafæðismótið sem hefst núna í desember. Þar höldum við áfram okkar undirbúningi með það fyrir augum að fá svör varðandi leikmenn og leikfræði liðisins.

Kveðja
Þjálfarateymi meistaraflokks karla í knattspyrnu


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband