Breiðablik lagði Þór/KA að velli 1-4

Fótbolti
Breiðablik lagði Þór/KA að velli 1-4
Blikar númeri of stórir í kvöld (mynd: Sævar Geir)

Það var stórleikur í kvöld á Þórsvelli er Þór/KA tók á móti Breiðablik í 4. umferð Pepsi Max deildar kvenna. Liðin hafa verið bestu lið landsins undanfarin ár og mátti því búast við hörkuleik en fyrir leikinn voru gestirnir með 9 stig en Þór/KA með 6 stig.

Þór/KA 1 - 4 Breiðablik
0-1 Hildur Antonsdóttir ('28)
0-2 Agla María Albertsdóttir ('34)
0-3 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('53)
1-3 Sandra Mayor ('68)
1-4 Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir ('82)

Leikurinn fór rólega af stað og ljóst að hvorugt liðið vildi taka of miklar áhættur í upphafi. Leikurinn breyttist hinsvegar á 28. mínútu þegar Þór/KA missti boltann upp við sinn eigin vítateig eftir að hafa tekið markspyrnu stutt og Hildur Antonsdóttir smellhitti boltann í slána og inn, staðan orðin 0-1 og ljóst að okkar lið þyrfti að opna sig í kjölfarið.

Bæði Andrea Mist Pálsdóttir og Saga Líf Sigurðardóttir reyndu fyrir sér eftir markið en hittu hvorugar á markið, það var því mikið áfall þegar gestirnir tvöfölduðu forystu sína með marki frá Öglu Maríu Albertsdóttur töluvert fyrir utan teiginn.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og ljóst að staðan var orðin ansi erfið fyrir stelpurnar enda Breiðablik með hörkulið og ekki oft sem þær láta forystu af hendi og hvað þá tveggja marka forystu.


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Sævars Geirs frá leiknum

Það var ekki langt liðið á síðari hálfleikinn er Berglind Björg Þorvaldsdóttir gerði þriðja mark Breiðabliks eftir laglegan snúning inn í teig okkar liðs. Okkar lið var þó staðráðið í að leggja ekki árar í bát og héldu áfram að leita að sínu fyrsta marki.

Sandra Mayor gerði það svo er rétt rúmar 20 mínútur lifðu leiks eftir frábæra sendingu inn fyrir frá Kareni Maríu Sigurgeirsdóttur. Enn nóg eftir af leiknum og stelpurnar fengu blóð á tennurnar við markið.

En vonir okkar liðs fóru endanlega á 82. mínútu er Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu sem var alveg uppvið teiginn. Í kjölfarið datt leikurinn niður enda úrslitin ráðin og ekki urðu mörkin fleiri, 1-4 sigur gestanna því staðreynd.

Stelpurnar hafa því tapað tveimur leikjum í upphafi sumars og virðast vera skrefi á eftir toppliðum Vals og Breiðabliks. Það er þó nóg eftir af sumrinu og vonandi að liðið haldi áfram að bæta í og sækja fleiri stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband