Brons hjá landsliðunum á Novotel Cup

Blak
Brons hjá landsliðunum á Novotel Cup
Flott mót hjá stelpunum okkar

Karla- og kvennalandslið Íslands í blaki tóku þátt í Novotel Cup mótinu sem fram fór í Lúxemborg og lauk í gær. KA átti fjóra fulltrúa í kvennalandsliðinu en það voru þær Gígja Guðnadóttir, Helena Kristín Gunnarsdóttir, Jóna Margrét Arnarsdóttir og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir.

Enginn núverandi leikmaður KA var í karlaliðinu en nokkrir fyrrum leikmenn liðsins voru í hópnum að þessu sinni. Kvennaliðið var skipað mörgum ungum leikmönnum og klárt mál að mótið mun reynast ansi mikilvægt í komandi verkefnum.

Stelpurnar byrjuðu mótið af krafti þegar þær lögðu Skota að velli 3-1 eftir að íslenska liðið hafði unnið fyrstu hrinu og svo þá þriðju og fjórðu. Næst mætti liðið því Enska en því miður náði liðið ekki að sýna sitt rétta andlit og tapaðist leikurinn 0-3. Helena Kristín var næststigahæst í íslenska liðinu í leiknum.

Í lokaleiknum mættu stelpurnar heimaliðinu í Lúxemborg sem hafði ekki tapað hrinu á mótinu. Gígja, Helena, Jóna og Valdís voru allar í byrjunarliði Íslands sem sýndi flottan leik í 1-3 tapi en í bæði þriðju og fjórðu hrinu unnu heimastúlkur með minnsta mun. Stelpurnar enduðu því í 3. sæti og fara heim með bronsið.

Það gerðu karlarnir líka en þeir töpuðu 1-3 fyrir Englandi, unnu 3-1 sigur á Skotlandi en töpuðu gegn Lúxemborg 0-3 og fengu því bronsið.

Allir leikmenn KA léku stórt hlutverk á mótinu og lék Jóna þarna sína fyrstu landsleiki en ljóst er að þeir verða klárlega fleiri enda er hún einungis 16 ára gömul


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband