Aðalfundur KA - uppbygging KA-svæðis

Almennt

Vinnuhópur skipaður til að hefja formlegar viðræður um uppbyggingu á KA-svæði

Aðalfundur KA fór fram í kvöld og þar sem formaður félagsins, Ingvar Már Gíslason, fór yfir liðið ár og kom víða við í ræðu sinni. Eins og kunnugt er hafa KA menn lengi haft væntingar um að hreyfing fari að komast á uppbyggingarmál félagsins á félagssvæði þess við Dalsbraut. Fram kom hjá Ingvari að í skýrslu þverpólitísks starfshóps varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri sé verkefnum á KA-svæðinu raðað númer 3, 4 og 11 í forgangsröð.

Fram kom hjá Ingvari að í þessu fælist ákveðin viðurkenning á þeirri stöðu sem félagið hefði fundið sig í undanfarin ár eða allt frá því hætt var við framkvæmdir á svæðinu 2008. Rökstuðningur hópsins fyrir framkvæmdum á KA-svæðinu væri góður og skýr.

Enn ánægjulegri tíðindi flutti formaðurinn fundinum er hann greindi frá því að staðfesting hefði borist frá bæjaryfirvöldum að búið væri að ákveða að skipa vinnuhóp sem samanstendur af fulltrúum bæjarstjórnar og fulltrúum KA til að hefja formlegar viðræður um hvernig standa megi að uppbyggingu á félagssvæði KA.

Afar jákvætt og stórt skref í átt að bættri aðstöðu fyrir iðkendur og félagsmenn í KA. Gert er ráð fyrir því að fyrsti fundur verði boðaður á næstu dögum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband