Nýr rekstrarsamningur við Akureyrarbæ

Almennt
Nýr rekstrarsamningur við Akureyrarbæ
Ásthildur og Ingvar ánægð með samninginn

Í dag var undirritaður nýr rekstrarsamningur við Akureyrarbæ sem gildir til næstu 5 ára. Það er félaginu mikið ánægjuefni að vera falið áfram það verkefni að annast rekstur og þjónustu á mannvirkjum Akureyrarbæjar á íþróttasvæði KA. Samningurinn er ekki síður mikilvægur fyrir félagið til að geta haldið uppi því öfluga starfi sem unnið er hjá KA.

"Með samningnum er tryggt að við getum áfram sinnt skyldum okkar gagnvart iðkendum okkar og öðrum félagsmönnum. Starfsemi KA er mjög umfangsmikil, fyrir utan okkar hefðbundna íþróttastarf erum við að auki að þjónusta Akureyrarbæ hvað varðar rekstur á íþrótta- og skólamannvirkjum. Á félagssvæði okkar koma hundruðir einstaklinga dag hvern til að æfa, keppa eða hitta aðra félagsmenn.

Mikilvægi íþróttafélaga í samfélaginu nú til dags er gríðarlega mikið, ekki síst þegar kemur að forvarnarstarfi fyrir börn og unglinga.Það er okkar mat að þróunin verði enn meiri í þá átt að íþróttafélög taki að sér fleiri verkefni fyrir samfélagið í heild sinni. Við KA menn erum því afar ánægð með það traust sem Akureyrarbær sínir okkur með því að treysta okkur fyrir þessu verkefni" segir formaður KA Ingvar Már Gíslason.

Það er ljóst að samningurinn er mjög jákvætt skref fyrir KA en félagið hefur stækkað gríðarlega síðustu misseri auk þess sem iðkendum hefur fjölgað mikið síðustu ár. KA er í dag eitt stærsta félag landsins og því skiptir öllu máli að samvinna félagsins og Akureyrarbæjar sé góð. Undirritunin í dag er lykilskref í því samstarfi næstu fimm árin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband