Glæsimark Almarrs gegn Fylki (myndir)

Fótbolti
Glæsimark Almarrs gegn Fylki (myndir)
Almarr átti magnað mark! (mynd: Þórir Tryggva)

KA hóf leik í Lengjubikarnum í fótbolta í gær er liðið tók á móti Fylki. Þarna mættust tvö lið úr Pepsi Max deildinni og má með sanni segja að töluverð eftirvænting hafi verið fyrir leiknum. Undanfarnar viðureignir liðanna hafa verið fjörugar og boðið upp á þó nokkuð af mörkum.

Leikurinn fór líka fjörlega af stað og fékk KA vítaspyrnu strax á áttundu mínútu leiksins eftir brot í teignum uppúr hornspyrnu. Hallgrímur Jónasson fór á punktinn en þrumaði boltanum í þverslánna og út, í kjölfarið var darraðadans í teignum og skaust boltinn aftur í slánna og sluppu gestirnir því með skrekkinn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

Ólafur Ingi Skúlason kom gestunum svo yfir skömmu síðar með skoti sem fór í gegnum þvöguna í teignum og Kristijan Jajalo í marki KA sem hafði hönd á boltanum náði ekki að stýra honum í burtu og staðan því orðin 0-1.

Almarr Ormarsson jafnaði hinsvegar metin á 20. mínútu með stórkostlegu skoti töluvert fyrir utan teiginn. Skot hans var bylmingsfast og átti Aron Snær í marki Fylkismanna ekki möguleika. Áfram var mikið líf í leiknum en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleiknum og staðan því 1-1 í hléinu.


Mark Almarrs var af dýrari gerðinni!

Síðari hálfleikur var ekki eins opinn og datt KA liðið aftar á völlinn. Á lokamínútunum reyndu bæði lið hvað þau gátu til að finna sigurmark en það kom ekki og lokatölur því 1-1.

Það vantaði þó nokkuð í KA liðið og var gaman að sjá flottar frammistöður hjá nokkrum af þeim sem fengu tækifærið. Má þar nefna Svein Margeir Hauksson, Áka Sölvason, Ottó Björn Óðinsson og Adam Örn Guðmundsson.

KA er þar með komið með eitt stig en næsti leikur er útileikur næstu helgi gegn Fram en Framarar töpuðu sínum leik gegn Keflavík.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband