KA og Þór mætast í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins

Fótbolti
KA og Þór mætast í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins
Við viljum sigur í þessum leik /mynd Þórir Tryggva

Það verður heldur betur alvöru leikur í Boganum á laugardaginn kl. 13:30 þegar KA og Þór mætast í Kjarnafæðismótinu. Stilla má leiknum upp sem úrslitaleik mótsins en KA er með fullt hús stiga eftir fimm leiki og dugir jafntefli til að tryggja sigur sinn í mótinu.

Þórsarar eru hinsvegar með 10 stig eftir fjóra leiki og þurfa því á sigri að halda auk þess sem liðið á eftir leik gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Sigri Þórsarar báða leikina standa þeir uppi sem sigurvegarar mótsins.

Leikir KA og Þórs eru ávallt sérstakir og spennandi leikir enda er miklu meira undir en þrjú stig þegar liðin mætast, bæjarstoltið er einfaldlega undir. Rétt eins og undanfarin ár eru liðin ekki í sömu deild í sumar og má því reikna með að leikurinn á laugardaginn verði eina viðureign liðanna á árinu.

Aðgangseyrir á leikinn er 500 krónur og mun allur ágóði renna óskiptur til fjölskyldu Bjarna Hrannars Héðinssonar dómara og formanns Knattspyrnudómarafélags Norðurlands. Bjarni hefur glímt við alvarleg veikindi síðustu mánuði og gengur nú í gegnum langa og stranga endurhæfingu.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla KA menn til að mæta og styðja strákana til sigurs, liðið hefur unnið alla leiki sína á mótinu og væri ekki leiðinlegt að endurtaka leikinn frá því í fyrra og vinna mótið með fullt hús stiga. Í leik liðanna í fyrra kom Bjarki Þór Viðarsson Þórsurum yfir í fyrri hálfleik en Elfar Árni Aðalsteinsson gerði tvö mörk í síðari hálfleik og tryggði 2-1 sigur okkar liðs.

Liðin léku síðast saman í deild sumarið 2016 en það ár vann KA Inkasso deildina og tryggði sér loksins sæti í efstu deild eftir of langa fjarveru. Liðin mættust tvívegis og vann KA heimaleik sinn 1-0 með marki frá Elfari Árna. Liðin mættust svo á Þórsvelli í lokaumferðinni þar sem KA vann 0-3 sigur með mörkum frá Almarri Ormarssyni, Juraj Grizelj og Bjarka Þór Viðarssyni.

Sumarið þar áður léku liðin einnig saman í næstefstu deild og vann KA einnig heimaleik sinn 1-0 og útileikinn 0-3. Ævar Ingi Jóhannesson gerði markið mikilvæga í heimaleiknum en í útileiknum skoraði Ben Everson fyrir KA auk þess sem Þórsarar gerðu tvö sjálfsmörk.

Hlökkum til að sjá ykkur í Boganum á laugardaginn klukkan 13:30 kæru KA-menn, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband