Sannfærandi sigur KA á Dalvík/Reyni

Fótbolti
Sannfærandi sigur KA á Dalvík/Reyni
5 sigrar af 5 mögulegum! (mynd: Sævar Geir)

KA og Dalvík/Reynir mættust í næstsíðustu umferð Kjarnafæðismótsins í fótbolta í Boganum í dag. Fyrir leikinn voru bæði lið án taps en KA var með fullt hús stiga á sama tíma og Dalvík/Reynir var með 8 stig eftir tvo sigra og tvö jafntefli.

KA liðið hóf leikinn af krafti og tók strax völdin á vellinum. Liðsmenn Dalvíkur/Reynis vörðust aftarlega og ljóst að strákarnir þyrftu að sýna þolinmæði til að brjóta gestina á bak aftur. Verkefnið varð töluvert auðveldara þegar boltinn datt fyrir Steinþór Frey Þorsteinsson rétt fyrir utan teiginn á 13. mínútu og lét hann vaða á markið. Kristófer Már í markinu virtist ætla að verja skotið en missti boltann svo framhjá sér og staðan því orðin 1-0.

Strákarnir héldu í kjölfarið áfram að þjarma að gestunum og það skilaði sér í öðru marki á 27. mínútu þegar Brynjar Ingi Bjarnason skallaði hornspyrnu frá Bjarna Aðalsteinssyni laglega í fjærhornið. Steinþór Freyr gerði svo sitt annað mark í leiknum rétt fyrir hálfleikinn eftir flott samspil KA liðsins sem endaði með fyrirgjöf frá Nökkva Þeyr Þórissyni og Steinþór gerði vel í að klára færið.

Staðan var því 3-0 í hléinu og ljóst að KA myndi fara með sigur af hólmi. Dalvík/Reynir hafði ansi lítið bit framá við enda vörðust þeir okkar liði ansi aftarlega sem gerði það að verkum að þeir sóttu iðulega á fáum mönnum og vörn KA var yfirleitt fljót að ná boltanum til baka.

Ottó Björn Óðinsson gerði mark leiksins þegar hann þrumaði boltanum laglega í netið fyrir utan teig á 57. mínútu og í kjölfarið datt tempóið aðeins niður í leiknum. Að lokum vann KA 4-0 sigur sem var ansi sanngjarn og leit liðið mjög vel út í leiknum.

Strákarnir eru því áfram með fullt hús stiga í Kjarnafæðismótinu og er aðeins einn leikur eftir sem er einmitt gegn Þór á laugardaginn. Það má búast við að sá leikur verði hreinn úrslitaleikur um sigur á mótinu en þó dugar okkar liði jafntefli til að vinna mótið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband