Alfreð og Duranona í goðsagnarhöll KA

Handbolti
Alfreð og Duranona í goðsagnarhöll KA
Alfreð og Duranona skipa stóran sess í sögu KA

Það bættust tveir magnaðir kappar í goðsagnarhöll handknattleiksdeildar KA fyrir leik KA og FH um helgina. Þetta eru þeir Alfreð Gíslason og Róbert Julian Duranona og bætast þeir í hóp með Erlingi Kristjánssyni, Guðjóni Val Sigurðssyni, Valdimar Grímssyni og Patreki Jóhannessyni.

Það þarf ekki mikið að kynna Alfreð Gíslason fyrir handboltaunnendum. Alfreð er uppalinn í KA og lék ungur að aldri með meistaraflokk félagsins áður en hann fór suður í nám og síðar í atvinnumennsku. Alfreð lék alls 190 landsleiki fyrir Ísland og varð meðal annars B-Heimsmeistari árið 1989 þar sem hann var valinn leikmaður keppninnar.

Alfreð sneri aftur heim í KA árið 1991 og tók við stjórn liðsins auk þess að spila með liðinu. Hann var lykilpartur í upprisu handboltans hjá KA en undir hans stjórn varð KA Bikarmeistari 1995 og 1996, Deildarmeistari 1996, Meistari Meistaranna 1997 og kvaddi svo félagið með Íslandsmeistaratitli 1997 áður en hann fór til Þýskalands í þjálfun þar sem hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna.

Það eru eðalhjónin Sigríður Árnadóttir og Jóhann Helgason sem koma að vígslu Alfreðs inn í goðsagnarhöllina og viljum við þakka þeim kærlega fyrir þeirra aðkomu.

Róbert Julian Duranona kom til KA árið 1995 og má með sanni segja að hann sé ein stærsta stjarnan í handboltasögu Íslands. Með KA varð Duranona Deildar- og Bikarmeistari árið 1996 auk þess sem hann var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins og markahæsti leikmaður úrslitakeppninnar það tímabilið. Árið 1997 varð hann Íslandsmeistari með KA og varð aftur markahæsti leikmaður úrslitakeppninnar það árið.

Þá var Duranona valinn besti erlendi leikmaðurinn til að spila handbolta á Íslandi í þjóðarkosningu tengdri sjónvarpsþættinum Handboltalið Íslands. Það er Sjóvá sem kemur að vígslu Duranona og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra aðkomu.

Við munum halda áfram að vígja fleiri kappa inn í höllina á næsta tímabili en hafir þú eða þitt fyrirtæki áhuga á að taka þátt í þessu skemmtilega framtaki skaltu endilega hafa samband í netfangið agust@ka.is. Þetta er kjörin auglýsing enda strigarnir ansi sýnilegir.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband