KA einum sigri frá þrennunni!

Blak
KA einum sigri frá þrennunni!
Einn sigur í viðbót! (mynd: Egill Bjarni)

KA vann í kvöld 0-3 útisigur á Aftureldingu í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Stelpurnar unnu einnig 3-0 sigur í fyrsta leiknum sem fram fór í KA-Heimilinu á dögunum og geta því hampað titlinum með sigri í næsta leik.

Stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og héldu því áfram þar sem frá var horfið í síðasta leik. KA komst strax í 1-8 forystu og það bil tókst Mosfellingum aldrei að brúa. Mestur varð munurinn níu stig í stöðunni 6-15 og var sigur okkar liðs aldrei í hættu í fyrstu hrinu. Á endanum vannst 16-25 sigur og KA því komið í 0-1.

En Afturelding er með hörkulið og þær svöruðu betur fyrir sig í annarri hrinu, úr varð spennandi og skemmtileg hrina þar sem liðin skiptust á að leiða og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda. Afturelding leiddi 20-19 fyrir lokakaflann en frábær lokasprettur KA liðsins sá til þess að stelpurnar fóru með 22-25 sigur og því komnar í kjörstöðu, 0-2.

Heimastúlkur með bakið upp við vegg en það var okkar lið sem byrjaði þriðju hrinuna betur og um miðbikið var staðan 10-15 og loks 12-16 fyrir KA. Þá svaraði Afturelding með fimm stigum í röð og hleypti aftur spennu í leikinn. En rétt eins og í annarri hrinu voru stelpurnar okkar klárar þegar mest á reyndi og þær hömpuðu 22-25 sigri og unnu þar með leikinn 0-3.

Það hefur verið hrein unun að fylgjast með stelpunum okkar í þessu úrslitaeinvígi og þær eru verðskuldað komnar í 2-0 stöðu í einvíginu, einn sigur í viðbót tryggir Íslandsmeistaratitilinn. En Afturelding sýndi í kvöld að það er stutt á milli í þessu og alveg ljóst að við þurfum að halda áfram að spila okkar besta leik til að ganga frá einvíginu.

Næsti leikur er í KA-Heimilinu þriðjudaginn 3. maí næstkomandi klukkan 19:00 og alveg klárt að við þurfum að fjölmenna í húsið gott fólk! Stelpurnar okkar eru Deildar- og Bikarmeistarar og freista þess að endurtaka leikinn frá 2019 er þær kláruðu þrennuna ógleymanlegu. Stelpurnar eiga það skilið að við fyllum KA-Heimilið og styðjum þær í baráttunni, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband