Dagur og Svavar í 8. sæti á HM með U19

Handbolti

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri varð í 8. sæti á Heimsmeistaramótinu sem fór fram í Norður-Makedóníu. Í liði Íslands voru tveir fulltrúar KA en það voru þeir Dagur Gautason og Svavar Ingi Sigmundsson.

Strákarnir hófu mótið af krafti og unnu sannfærandi 25-20 sigur á Túnis eftir að hafa leitt 12-6 í hálfleik. Dagur var markahæstur í liði Íslands með 6 mörk og Svavar varði 2 skot í markinu. Lið Brasilíu var lagt að velli í næsta leik þar sem Ísland vann 30-26. Dagur gerði 5 mörk í leiknum og Svavar varði 1 skot.

Í næsta leik þurftu strákarnir að sætta sig við 24-28 tap gegn Portúgal þar sem Dagur gerði 3 mörk og Svavar varði 1 skot. Í kjölfarið lágu Serbar í valnum eftir 26-22 sigur Íslands þar sem Dagur gerði 5 mörk. Strákarnir voru öruggir með sæti í 16-liða úrslitum fyrir lokaleikinn í riðlinum sem var gegn Þjóðverjum og tapaðist sá leikur 22-26. Dagur var markahæstur með 4 mörk og Svavar varði 7 skot í markinu.

Í 16-liða úrslitum mættu strákarnir liði Japan og unnu mjög sanngjarnan 39-34 sigur. Dagur gerði 8 mörk í leiknum og sæti í 8-liða úrslitum tryggt. Þar léku strákarnir gegn Egyptalandi og eftir slakan fyrri hálfleik leiddu Egyptar 14-21. Íslenska liðið reyndi að koma sér aftur inn í leikinn en komst ekki nær en 3 mörk og tapaðist leikurinn 31-35. Dagur varð fyrir meiðslum í leiknum en harkaði af sér og mætti aftur til leiks í næstu leiki.

Í kjölfarið töpuðu strákarnir 24-30 fyrir Frökkum og ljóst að Ísland myndi leika um 7. sætið á mótinu. Dagur var markahæstur með 8 mörk og Svavar varði 11 skot í leiknum. Lokaleikurinn tapaðist svo einnig en hann var gegn Spáni. Lokatölur urðu 20-26 þar sem Dagur var markahæstur með 5 mörk og Svavar varði 9 skot.

8. sætið því staðreynd og geta strákarnir verið nokkuð sáttir þó markmiðið hafi vissulega verið ofar. Þetta er hörkulandslið sem við eigum þarna og ljóst að strákarnir munu nýta þessa reynslu á næstu mótum og virkilega jákvætt að við í KA eigum þarna tvo fulltrúa í stórum hlutverkum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband