Elfar Árni bestur á lokahófi knattspyrnudeildar

Fótbolti
Elfar Árni bestur á lokahófi knattspyrnudeildar
Elfar Árni, Hallgrímur Mar og Aron Dagur í gær

Lokahóf knattspyrnudeildar KA fór fram í gærkvöldi og var mikið um dýrðir í veislusal Greifans. Góðu gengi sumarsins var fagnað en KA liðið endaði í 5. sæti Pepsi Max deildarinnar sem er besti árangur KA frá árinu 2002. Sumarið var gert upp og þeir sem stóðu uppúr voru verðlaunaðir.

Það má með sanni segja að kvöldið hafi verið eign Elfars Árna Aðalsteinssonar en hann var valinn besti leikmaður af leikmönnum og stjórn félagins auk þess sem hann var valinn bestur hjá Vinum Móða og Schiöthurum. Hluti af því að vinna Móðann var glæsilegur farandsjakki sem Elfar Árni mun bera næsta árið.

Aron Dagur Birnuson var valinn efnilegasti leikmaður KA og þá var Hallgrímur Mar Steingrímsson verðlaunaður fyrir að vera markahæsti leikmaður KA yfir sumarið en Hallgrímur gerði 14 mörk í sumar í deild og bikar.

Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA gerði upp sumarið fyrir hönd stjórnarinnar og Almarr Ormarsson gerði upp tímabilið fyrir hönd leikmanna. Stuðningsmönnum KA var þakkað sérstaklega fyrir frábæran stuðning í sumar og voru Schiötharar verðlaunaðir með gjafabréfi í Tónabúðina. Þeir geta því áfram sinnt sínum trommustörfum af fullum krafti.

Kaffikonurnar eins og þær eru gjarnan kallaðar voru einnig heiðraðar fyrir þeirra framlag í sumar en þær taka að sér hálfleikskaffið fyrir stuðningsmenn og þá elda þær heita og góða máltíð fyrir leikmenn að hverjum heimaleik loknum.

Að lokum var eiginkonum og kærustum leikmanna þakkaður þeirra stuðningur sem er að sjálfsögðu ómetanlegur. Það má með sanni segja að gleðin hafi skinið úr andliti hverju á kvöldinu og ljóst að KA stefnir á enn betri hluti næsta sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband