Fram of stór biti fyrir KA/Þór

Handbolti
Fram of stór biti fyrir KA/Þór
Ólöf nýtti tækifærið vel (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór sótti Íslandsmeistara Fram heim í Olís deild kvenna í handbolta í kvöld. Fyrirfram var vitað að verkefnið væri ansi krefjandi þó stelpurnar hefðu borið sigur af hólmi í fyrri leik liðanna í vetur. Leikur kvöldsins var lokaleikurinn í annarri umferð deildarinnar og verður þriðju og síðustu umferðinni raðað upp í kjölfarið.

Stelpurnar hófu leikinn af krafti og gáfu Fram nákvæmlega ekkert. Jafnt var á fyrstu tölum og útlit fyrir annan hörkuleik rétt eins og fyrr í vetur. Þá sýndu Íslandsmeistararnir hinsvegar styrk sinn og stungu af í kjölfarið. Staðan var orðin 11-6 og síðar 12-7 þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum.

Þarna reiknuðu flestir með að leikurinn væri búinn enda alls ekki algengt að hið sterka lið Fram sleppi jafn góðu taki á leik eins og þessu. En okkar lið er alls ekki þekkt fyrir að leggja árar í bát og næstu mínútur voru ævintýralegar. Vörnin og Olgica Andrijasevic lokuðu vel og sóknarlega gerðu stelpurnar vel.

Á endanum urðu mörkin sex sem stelpurnar gerðu í röð og komust því í 12-13. Þá lifnuðu heimastúlkur aftur við sér og hálfleikstölur voru 14-14. Leikurinn því galopinn og alveg klárt mál að Íslandsmeisturunum var ekki rótt er liðin gengu til búningsherbergja.

En það þarf ansi mikið að ganga upp til að standa í Fram í heilar 60 mínútur og byrjunin á síðari hálfleik var ekki nægilega góð. Eftir tæpar tíu mínútur var munurinn orðinn fjögur mörk og ansi erfitt að ná aftur að brúa bilið. Áfram gerði okkar lið sitt besta og minnkaði muninn í nokkur skipti niður í tvö mörk.

Þegar leið á síðari hálfleikinn jókst hinsvegar aðeins munurinn og gekk ansi lítið sóknarlega síðasta kortérið. Lið Fram gekk á lagið og vann á endanum 31-24 sigur sem gefur frekar mynd af styrkleika heimaliðsins heldur en gangi leiksins.

Frekar svekkjandi að tapa með jafn miklum mun eftir jafn góða frammistöðu og klárt mál að frammistaðan gefur góð fyrirheit. Það hefði verið ótrúlegur bónus að uppskera stig í kvöld gegn liði sem er í harðri baráttu um Deildarmeistaratitilinn.

Eins og svo oft áður fór mikið fyrir Mörthu Hermannsdóttir en hún gerði 10 mörk í kvöld, þar af 6 úr vítaköstum. Hulda Bryndís Tryggvadóttir gerði 5 mörk og þá var hrikalega gaman að sjá framlagið hjá Ólöfu Marín Hlynsdóttur sem gerði 4 mörk. Anna Þyrí Halldórsdóttir gerði 2 mörk og þær Ásdís Guðmundsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir gerðu allar 1 mark.

Olgica Andrijasevic varði 12 skot í markinu

Nú eru aðeins 7 leikir eftir af Olís deildinni og eftir úrslit kvöldsins er okkar lið fjórum stigum frá ÍBV í 4. sætinu og fimm stigum frá Haukum í 3. sætinu. Það verður því ansi erfitt að klífa upp í úrslitakeppnissæti en stelpurnar hafa þó sýnt það í ófá skipti í vetur að þær geta staðið í öllum liðum og aldrei að vita hvað gerist.

Flestir spáðu liðinu falli úr deildinni en liðið situr nú með 13 stig í 5. sætinu og er fjórum stigum fyrir ofan Stjörnuna og væri það ótrúlega flottur árangur ef liðinu tækist að halda því sæti. Nú bíðum við eftir að HSÍ raði upp þriðju og síðustu umferðinni og munum við færa fréttir af leikjaplani út veturinn á næstunni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband