Fyrrum fyrirliðar spá KA sigri

Fótbolti

Á morgun, laugardag, er komið að stærsta leik sumarsins þegar KA og Víkingur mætast í sjálfum bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli klukkan 16:00. KA er að leika til úrslita í bikarkeppni KSÍ í fjórða skiptið í sögunni og í fyrsta skiptið frá árinu 2004.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að tryggja sér miða og styðja strákana til sigurs. Við verðum með sérstaka KA upphitun fyrir leik í Nýju Laugardalshöllinni frá klukkan 13:00 til 15:00 og þaðan löbbum við á Laugardalsvöll.

Miðasala fer öll fram á Tix.is og er hægt að tryggja sér miða hér:

Kaupa miða á bikarúrslitaleikinn

Í tilefni leiksins heyrðum við hljóðið í þeim Bjarni Jónssyni, Þorvaldi Makan og Atla Sveini en þeir voru fyrirliðar KA í fyrri bikarúrslitaleikjum félagsins.

Bjarni Jónsson var fyrirliði KA í fyrsta bikarúrslitaleik félagsins árið 1992 er KA og Valur mættust í einum sögufrægasta bikarúrslitaleik sem spilaður hefur verið. Hann hefur að sjálfsögðu trú á KA sigri á laugardaginn!
 
Hvernig var tilfinningin að leiða KA liðið inn í fyrsta bikarúrslitaleik félagsins?
Tilfinningin var frábær, við vorum flestir að upplifa bikarúrslitaleik í fyrsta skiptið og nutum augnabliksins vel. Þetta er leikurinn sem allir knattspyrnumenn vilja spila.
 
Hvernig var andrúmsloftið og stemningin fyrir leiknum?
Andrúmsloftið var algjörlega rafmagnað, það var mikil eftirvænting fyrir leiknum og myndaðist frábær stemning og stuðningurinn var ótrúlegur. Þetta er upplifun sem ég mun aldrei gleyma.
 
Hvernig leggst úrslitaleikurinn á laugardaginn í þig og hvernig spáirðu leiknum?
Leikurinn leggst mjög vel í mig, KA vinnur þennan leik 2-1 og klárt að þetta verður geggjuð skemmtun!

Þorvaldur Makan Sigbjörnsson var fyrirliði KA í bikarúrslitaleiknum 2001 gegn Fylki þar sem 1. deildarlið KA leiddi tvívegis í leik sem fór að lokum í vítaspyrnukeppni. Gefum Dodda orðið:
 
Hvernig var tilfinningin að leiða KA liðið inn í bikarúrslitaleik?
Hún var alveg frábær. Þegar KA spilaði til úrslita 1992 var ég skilinn eftir fyrir utan hóp. Þrátt fyrir að hafa verið 17 ára þá var ég auðvitað brjálaður og ákvað að ég skildi síðar spila bikarúrslitaleik með KA. Það tókst árið 2001 og ekki skemmdi fyrir að vera fyrirliði liðsins á þeim tíma. Það var auðvitað mikill heiður að fá að leiða liðið til úrslita og jafnframt mikil vonbrigði að tapa leiknum í vítaspyrnukeppni. Við stóðum okkur þó mjög vel, sem fyrstu deildar lið, og vorum hreinlega óheppnir að vinna ekki leikinn en við vorum þrír á móti tveimur á lokasekúndum leiksins.
 
Hvernig var andrúmsloftið og stemningin fyrir leiknum?
Hún var virkilega góð. Við gistum á hóteli í Borganesi, enda var skipulag Todda, Vigga og Gassa alltaf uppá 10. Reyndar var eitthvað lítið um mat á þeim tíma í bæjarfélaginu og Ási Gísla hljóp uppá bensínstöð og reddaði okkur smá eftirrétt, algjör veisla! Daginn fyrir leik, þá vorum við með æfingu í Borganesi. Því miður tognaði ég í lærinu á þeirri æfingu og það var ekki útséð með að ég myndi spila. En Dr. Þórir V. Þórisson sá til þess með því að sprauta undra meðali í lærið á mér fyrir leik, í hálfleik og fyrir framlengingu að ég gæti spilað. Svo þegar í vítaspyrnukeppnina var komði þá var öll deyfing farin út og ég heimtaði fjórðu sprautuna til þess að geta skotið á markið. Þórir vildi nú ekki leyfa það og sem betur fer því ég er enn í þokkalegum vandræðum með lærið á mér!
 
Hvernig leggst úrslitaleikurinn á laugardaginn í þig og hvernig spáirðu leiknum?
Hann leggst mjög vel í mig. Víkingar eru reyndar með frábært lið, eitt það besta í sögu knattspyrnu Íslands, en við KA menn erum með hjartað á réttum stað og til alls líklegir. Þetta verður baráttu leikur í geggjuðu veðri og ég er viss um um að Grímsi vinur minn setji eitt. Eigum við ekki að segja að Captain Ívar skalli hann inn í restina og við siglum þessu 2-0!!
 
Skemmtileg staðreynd, ég hef spilað með öllum bikarúrslita fyrirliðum KA, þeim Bjarna Jóns, Steini Viðari og Atla Sveini. Ég hef reyndar ekki spilað með Ívari Erni en ég hef spilað með pabba hans, sem er ekki síður geggjaður náungi! ÁFRAM KA

Atli Sveinn Þórarinsson var fyrirliði KA í síðasta bikarúrslitaleik félagsins þegar KA mætti Keflavík árið 2004. Atli er að sjálfsögðu bjartsýnn fyrir leiknum á morgun og spáir KA sigri!
 
Hvernig var tilfinningin að leiða KA liðið inn í bikarúrslitaleik?

Tilfinningin var frábær eins og alltaf að leiða KA liðið inn á völlinn. Maður er meðvitaður um að maður er að spila fyrir fullt af fólki sem elskar KA, allt fólk sem maður hefur meira og minna þekkt frá blautu barnsbeini. Stolt og forréttindi væru réttu orðin held ég.

Hvernig var andrúmsloftið og stemningin fyrir leiknum?
Andrúmsloftið var gott í leikmannahópnum, en kannski erfiðara meðal stuðningsmanna. Þetta var búið að vera erfitt tímabil, við féllum og skoruðum lítið af mörkum. Bikarinn var okkar haldreipi þetta árið og við slógum meðal annars út ÍBV og Íslandsmeistara FH á leiðinni í úrslitin. Þannig að stemningin fyrir leik var mjög góð eins og alltaf hjá KA.

Hvernig leggst úrslitaleikurinn á laugardaginn í þig og hvernig spáirðu leiknum?
Ég er mjög spenntur fyrir úrslitaleiknum. Ég sé fyrir mér að leikurinn endi 1-1 í venjulegum leiktíma, Grímsi með screamer. Við vinnum loks í vító, skorum úr öllum okkar spyrnum!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband