Hildur Lilja í 8. sæti á HM með U18

Handbolti
Hildur Lilja í 8. sæti á HM með U18
Hildur Lilja (vinstri) átti frábært mót með U18

Hildur Lilja Jónsdóttir stóð í ströngu með U18 ára landsliði Íslands í handbolta sem lék á HM í Norður-Makedóníu á dögunum. Stelpurnar stóðu sig frábærlega á mótinu og náðu á endanum besta árangri hjá íslensku kvennalandsliði í handbolta.

Íslenska liðið hóf mótið á að leggja Svíþjóð að velli 22-17 eftir að hafa leitt 11-9 í hálfleik og sló það tóninn fyrir framhaldið. Í næsta leik gerðu stelpurnar 18-18 jafntefli gegn Svartfjallalandi eftir að staðan hafði verið jöfn 11-11 í hálfleik. Liðið tryggði sér svo efsta sæti riðilsins og sæti í milliriðli með 42-18 stórsigri á Alsír en íslenska liðið komst meðal annars í 13-1 forystu og leiddi 23-8 í hléi.

Í milliriðlinum vannst 28-17 sigur á Íran sem tryggði liðinu sæti í 8-liða úrslitum mótsins. Stelpurnar unnu svo 25-22 baráttusigur á heimastúlkunum frá Norður-Makedóníu í lokaleik milliriðilsins sem gerði það að verkum að Ísland vann milliriðilinn.

Í 8-liða úrslitum mætti íslenska liðið því hollenska og úr varð hörkuleikur. Holland leiddi 12-15 í hálfleik og hafði yfirhöndina lengst af í þeim síðari. En góður kafli Íslands breytti stöðunni úr 16-19 yfir í 21-20 er tíu mínútur lifðu leiks. Jafnt var 26-26 á lokamínútunni og Ísland með boltann en vörn Hollands stóð sóknina af sér og skoraði svo sigurmarkið á lokasekúndunum og afar svekkjandi 26-27 tap því staðreynd.

Íslenska liðið lék því um 5.-8. sætið á mótinu þar sem liðið mætti Frakklandi í krossspili. Sterkt lið Frakklands náði frumkvæðinu snemma leiks og hélt þriggja marka forystu nær allan leikinn og vann að lokum 29-32 sigur og hlutskipti Íslands því að leika um 7. sætið þar sem stelpurnar mættu Egyptalandi.

Leikurinn gegn Egyptum var kaflaskiptur og mátti vart sjá hvoru meginn sigurinn myndi enda. Fór að lokum að staðan var jöfn 31-31 í leikslok og vítakeppni því framundan. Þar reyndust þær egypsku sterkari og lokaniðurstaðan því 8. sætið hjá okkar flotta liði.

Þrátt fyrir svekkjandi endi á mótinu geta íslensku stelpurnar svo sannarlega borið höfuðið hátt en eins og kom fram í upphafi er þetta besti árangur íslensks kvennalandsliðs í handbolta. Við óskum stelpunum innilega til hamingju með árangurinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband