KA Bikarmeistari í blaki 2018

Blak
KA Bikarmeistari í blaki 2018
KA Bikarmeistari í blaki í 8. sinn (mynd: mbl.is)

Karlalið KA í blaki gerði sér lítið fyrir og lagði Íslandsmeistara HK að velli í úrslitaleik Kjörísbikarsins 3-1 og tryggði sér sinn 8. Bikarmeistaratitil í sögu félagsins. KA liðið hefur þar með unnið bæði Deildarmeistaratitilinn og Bikarmeistaratitilinn í ár og stefnir að sjálfsögðu á þrennuna.

KA 3-1 HK
25-23
25-16
16-25
25-22

Fyrirfram var búist við hörkuleik þrátt fyrir að KA væri talið líklegra að hampa Bikarmeistaratitlinum. Fyrsta hrinan var hörkuspennandi en KA vann á endanum 25-23. Í annarri hrinunni sýndi liðið mátt sinn og vann öruggan 25-16 sigur.

En HK er með flott lið og þeir komu sterkir til baka og svöruðu með 16-25 sigri í þeirri þriðju en KA liðið gerði mikið af mistökum sem Kópavogsbúar nýttu sér vel. Í fjórðu hrinunni mátti vart sjá hvort liðið myndi ná vinningnum en þegar mest á reyndi sýndi KA liðið hve sterkt og fjölbreytt það getur spilað og landaði 25-22 sigri.

Quentin Moore var stigahæsti leikmaður KA með 24 stig og var hann jafnframt valinn maður leiksins. Framundan er svo baráttan um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn þar sem liðið mætir Aftureldingu í undanúrslitum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband