KA bikarmeistari í blaki kvenna 2019!

Blak
KA bikarmeistari í blaki kvenna 2019!
Stórt skref í sögu KA stigið í dag!

Kvennalið KA í blaki sem varð Deildarmeistari á dögunum mætti HK í úrslitum Kjörísbikarsins í dag. Fyrirfram var búist við hörkuleik enda tvö bestu blaklið landsins að mætast og úr varð hörku skemmtilegur og spennandi leikur.

HK byrjaði betur og komst meðal annars í 3-7 áður en Luz Medina uppspilari KA tók til sinna ráða og KA komst í 12-9 stuttu síðar. Áfram hélt þessi magnaði kafli okkar liðs og þegar staðan var orðin 21-14 var ekki mikið sem benti til þess að HK kæmi til baka. Það varð þó raunin og endaði hrinan í upphækkun þar sem stelpurnar unnu að lokum 29-27 og staðan því orðin 1-0 fyrir KA.

Hvort að þessi kafli hafi slegið okkar lið aðeins út af laginu eða gefið HK aukinn kraft skal ég ekki segja en næsta hrina var ansi ójöfn og HK rúllaði yfir okkar lið og vann sanngjarnan 12-25 sigur og jafnaði þar með í 1-1.

En það býr mikill karakter í okkar liði og stelpurnar tóku sig til og komust strax í 7-1 í þriðju hrinu. Eftir það hélt KA liðið öruggri forystu og 25-16 sigur í þriðju hrinu var ansi sannfærandi. Staðan því orðin 2-1 og stelpurnar með pálmann í höndum sér.

Fjórða hrina var jöfn og spennandi í upphafi en þegar leið á sýndu stelpurnar styrk sinn og komust í 18-12. HK reyndi hvað það gat til að koma sér aftur inn í leikinn en KA liðið er einfaldlega það gott að 25-19 urðu lokatölur í hrinunni og KA vann þar með leikinn 3-1.

Fyrsti Bikarmeistaratitill KA í kvennaflokki í blaki staðreynd og eru stelpurnar ansi vel að titlinum komnar. Liðið er nú Deildar- og Bikarmeistari og virðast einfaldlega vera besta liðið á landinu þó vissulega sé enn langt í land til að landa stærsta titlinum í hús.

Luz Medina var valin besti leikmaður leiksins en hún stýrði spili KA liðsins afar vel en flestir leikmenn KA stóðu vel fyrir sínu. Stigahæstar í liði KA voru Helena Kristín Gunnardsóttir með 17 stig, Hulda Elma Eysteinsdóttir 12, Luz Medina 11 og Paula del Olmo 10.

Við óskum liðinu hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að sjá til liðsins er í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn er komið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband