KA gjörsigraði Íslandsmeistarana!

Fótbolti

KA sótti Íslandsmeistara Vals heim í kvöld í næstsíðustu umferð Pepsi Max deildarinnar í fótbolta. Fyrir leikinn tapaði KR 1-2 á heimavelli sínum gegn Víkingum og því ljóst að KA og Valur höfðu þar með tækifæri á að stökkva upp í 3. sætið sem getur gefið Evrópusæti ef allt gengur upp.

Leikurinn var býsna fjörugur og sást strax frá fyrstu mínútu að bæði lið voru mætt til að sækja sigur. Birkir Már Sævarsson kom Valsmönnum yfir strax á 5. mínútu eftir laglega sókn og krefjandi verkefni okkar manna orðið enn erfiðara.

En það býr heldur betur mikið í strákunum okkar og þeir pressuðu heimamenn stíft og leituðu að jöfnunarmarkinu. Það kom á 25. mínútu þegar Sebastiaan Brebels þrumaði boltanum í netið úr teignum eftir að Mark Gundelach hafði lagt boltann til hliðar á hann.

Bæði lið sóttu af krafti enda myndi jafntefli gera lítið upp á framhaldið en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því jöfn 1-1 er liðin gengu til búningsherbergja sinna. Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn betur og á einhvern ótrúlegan hátt tókst þeim ekki að ná forystunni á nýjan leik. Fyrst þegar Steinþór Már í marki KA missti af boltanum en Dusan Brkovic bjargaði fyrir opnu marki og mínútu síðar varði Steinþór meistaralega einn gegn Tryggva Frey og staðan því áfram jöfn.

Arnar Grétarsson þjálfari KA gerði þá þrjár breytingar á liðinu og setti þá Elfar Árna, Nökkva Þeyr og Svein Margeir inn á. Ekki leið á löngu uns Nökkvi hafði komið boltanum í netið en hann gerði vel að skrúfa boltann í fjærhornið á 63. mínútu og KA skyndilega komið yfir.

Eftir markið galopnaðist leikurinn, Valsmenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og á sama tíma keyrðu strákarnir í bakið á þeim þegar boltinn vannst og alveg ljóst að mörkin myndu verða fleiri í leiknum.

Það var svo á 76. mínútu að Sebastiaan Brebels gerði sitt annað mark eftir frábæra skyndisókn þar sem Mark Gundelach gerði virkilega vel í að koma sér inn í teiginn og renndi loks boltanum á Brebels sem gat ekki annað en sett boltann í netið.

Fimm mínútum síðar rak Elfar Árni lokahnútinn á frábærum leik KA liðsins þegar hann kom boltanum framhjá Hannesi í marki Vals og enn var það Mark Gundelach sem lagði upp. KA vann þar með 1-4 stórsigur á heimavelli Íslandsmeistarana og lyfti sér upp í 3. sætið fyrir lokaumferðina.

Það var stórkostlegt að fylgjast með liðinu í dag og ansi stór yfirlýsing að vinna jafn stóran sigur á sterku liði Vals. Framundan er lokaumferðin sjálf þar sem KA tekur á móti FH á laugardaginn og ljóst að við þurfum að troðfylla Greifavöllinn til að halda þriðja sæti deildarinnar að leik loknum.

Efstu tvö sæti deildarinnar gefa þátttökurétt í Evrópukeppni en ef lið Víkings sem mun enda í öðru af þeim sætum verður Bikarmeistari þá mun 3. sæti deildarinnar einnig gefa þátttökurétt í Evrópukeppni. Það er því alveg klárt að við þurfum saman að tryggja það að KA sé í þeirri stöðu ef sú staða kemur upp!

Hlökkum til að sjá ykkur á laugardaginn, við munum auglýsa miðasölu þegar nær dregur leik, áfram KA!

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband