KA í lykilstöðu eftir sigur í Fagralundi

Blak
KA í lykilstöðu eftir sigur í Fagralundi
Quentin og félagar eru í góðri stöðu

Deildar- og Bikarmeistarar KA eru komnir í góða stöðu í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn eftir 3-1 sigur á HK í kvöld. KA vann leikinn 1-3 og leiðir því einvígið 2-0, næsti leikur verður í KA-Heimilinu á þriðjudaginn og getur með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrri leikur liðanna var hnífjafn og var sama uppi á teningunum í kvöld. HK leiddi til að byrja með en þegar líða tók á fyrstu hrinuna náði KA liðið forystunni og hélt henni til enda og vann góðan 21-25 sigur.

HK liðið þurfti á sigri að halda í leiknum og kom tvíeflt til leiks í næstu hrinu. Heimamenn náðu góðu forskoti og komust meðal annars í 14-8, KA liðið reyndi hvað það gat til að brúa bilið en það gekk ekki og HK jafnaði í 1-1 með 25-23 sigri.

Nokkrar sveiflur voru í þriðju hrinunni, KA byrjaði betur og komst í 6-10 en HK sneri taflinu við og komst í 16-12. Aftur gaf KA í og var spennan magnþrungin, jafnt var í stöðunni 21-21 en lokakaflinn var gulur og unnu strákarnir að lokum 21-25 og staðan orðin 1-2.

Fjórða hrinan var eins og þær fyrri jöfn og spennandi, KA hafði frumkvæðið en HK var aldrei langt á eftir. Staðan var jöfn 9-9 en þá kom flottur kafli hjá KA og breyttu þeir stöðunni í 10-15. HK liðið kom með áhlaup og minnkuðu muninn tvívegis í eitt stig en það var ekki nóg og KA vann 22-25 sigur og þar með leikinn 1-3.

Quentin Moore hefur verið drjúgur í liði KA í vetur og það munaði nú aldeilis um hann í kvöld en hann gerði alls 27 stig, geri aðrir betur! Nú kemur smá pása í einvígið en við viljum sjá alla í KA-Heimilinu á þriðjudaginn klukkan 20:00 enda eru okkar strákar staðráðnir í að lyfta Íslandsmeistaratitlinum og fullkomna þar með þrennuna í vetur, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband