KA lagði Breiðablik að velli í Bose mótinu

Fótbolti
KA lagði Breiðablik að velli í Bose mótinu
Elfar Árni setti tvö mörk (mynd: Þórir Tryggva)

KA lék sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu í gær er liðið sótti Breiðablik heim í Bose mótinu. Liðin leika í 1. riðli en einnig eru Stjarnan og Valur í þeim riðli. Aðeins efsta liðið fer áfram í úrslitaleikinn og því skiptir hver leikur ansi miklu máli í þeirri baráttu.

Breiðablik hóf leikinn af miklum krafti og þeir náðu forystunni strax á 3. mínútu með marki Höskuldar Gunnlaugssonar. Heimamenn pressuðu KA liðið stíft og leituðu ákaft að öðru marki sínu en sem betur fer fundu strákarnir betur taktinn er á leið og stóðust pressuna með aðstoð markstanganna.

KA liðið gerði svo virkilega vel í að keyra hratt í bak Blika er þeir unnu boltann og sneru leiknum. Á endanum vannst góður 2-3 sigur þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson gerði tvö mörk og Gunnar Örvar Stefánsson skoraði þriðja mark liðsins. Bjarni Þór Hafstein gerði hinsvegar seinna mark Breiðabliks.

Góður sigur staðreynd og eru strákarnir því jafnir Valsmönnum eftir fyrstu umferð riðilsins en Valur vann 3-2 sigur á Stjörnunni í sínum leik. Næsti leikur KA er gegn Stjörnunni á Samsungvellinum í Garðabæ á laugardaginn klukkan 12:00


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband