KA lagði Magna 4-1, myndaveisla

Fótbolti
KA lagði Magna 4-1, myndaveisla
Fullt hús eftir þrjá leiki (mynd: Sævar Geir)

KA mætti Magna í gærkveldi í þriðju umferð Kjarnafæðismótsins en fyrir leikinn var KA með fullt hús stiga en Grenvíkingar unnið einn leik og tapað einum. Einar Ari Ármannsson sem verður 17 ára á árinu lék í marki KA en Aron Dagur Birnuson var frá vegna meiðsla og Kristijan Jajalo er ekki kominn heim úr sínu jólafríi.

Leikurinn fór ákaflega rólega af stað og fyrir utan mark sem Steinþór Freyr Þorsteinsson gerði fyrir KA sem dæmt var af vegna rangstöðu var lítið um konfekt fyrir áhorfendur. Magnamenn hófu leikinn betur og reyndu hvað þeir gátu að setja pressu á KA liðið. Þeir komu sér nokkrum sinnum í álitlega stöðu úti á köntunum en náðu ekki að skapa verulega hættu.

KA liðið fór að finna taktinn betur og betur eftir rúmlega tuttugu mínútna leik og í kjölfarið lokuðu þeir nær alfarið á lið Magna. Mark KA var farið að liggja í loftinu og það kom á síðustu sekúndum uppbótartímans þegar Þorri Mar Þórisson potaði boltanum í netið eftir hornspyrnu.


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Sævars Geirs frá leiknum

Staðan var því 1-0 fyrir KA í hléinu og það tók rétt rúmlega mínútu fyrir Þorra að tvöfalda forystuna með sínu öðru marki. Strákarnir sýndu þarna hvað í þeim býr og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 3-0 eftir glæsimark frá Hrannari Birni Steingrímssyni utan teigs.

Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri en það voru hinsvegar gestirnir sem minnkuðu muninn á 73. mínútu þegar Þorsteinn Már Þorvaldsson náði frákasti eftir að Einar Ari hafði varið í marki KA. Áfram héldu strákarnir þó að þjarma að liði Magna og það skilaði einu marki í viðbót þegar Tómas Örn Arnarson varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark á lokasekúndum leiksins.

4-1 sigur KA því staðreynd og er liðið á toppnum með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina og með markatöluna 15-3. Næsti leikur liðsins er laugardaginn 18. janúar þegar strákarnir mæta Leikni Fáskrúðsfirði, 25. janúar mætir KA liði Dalvík/Reyni. Eftir það bíður svo nágrannaslagur við Þór í lokaumferð mótsins sem líklega verður úrslitaleikur um sigur á mótinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband