KA liðin leika um 5. sæti á NEVZA

Blak

Blaklið KA hafa staðið í ströngu um helgina þar sem þau hafa leikið á NEVZA Club Championship. Bæði karla- og kvennamegin léku 6 lið í tveimur riðlum þar sem efstu tvö liðin fóru áfram í undanúrslit en neðstu liðin leika um 5. sætið.

Karlalið KA lék gegn danska liðinu BK Marienlyst á föstudaginn og hóf leikinn af miklum krafti. Strákarnir náðu góðri forystu en Marienlyst kom til baka og úr varð svakaleg spenna. KA fór á endanum með 28-26 sigur í fyrstu hrinu og leiddi því 1-0. Áfram var mikið jafnræði í næstu hrinu en Marienlyst tókst að svara fyrir sig og jafnaði í 1-1 eftir 22-25 sigur.

Strákarnir reyndu hvað þeir gátu að halda í við danina í kjölfarið en þeir reyndust sterkari og unnu 17-25 og 20-25 sigra í næstu hrinum og þar með leikinn 1-3. Enska liðið IBB Polonia vann svo 3-2 sigur á Marienlyst sem gerði það að verkum að strákarnir þurftu á stórum sigri á að halda gegn Polonia á laugardaginn til að komast áfram.

Fyrsta hrina var erfið og hún tapaðist 17-25 en strákarnir sýndu flottan karakter að koma sér betur inn í leikinn og KA liðið vann 25-23 sigur í næstu hrinu eftir mikinn barning. Englendingarnir tóku aftur forystuna með 20-25 sigri í þriðju hrinu og útlitið svart. En áfram gáfust strákarnir ekki upp og þeir knúðu fram oddahrinu með 25-20 sigri. Gríðarleg spenna var í oddahrinunni en okkar lið var komið í virkilega flottan gír og vann á endanum 15-13 sigur og þar með leikinn 3-2.

Frábær sigur staðreynd en það var því miður ekki nóg þar sem að öll liðin unnu einn leik og KA endaði í 3. sæti með 2 stig og leikur því í dag gegn heimamönnum í Ishøj Volley um 5. sætið í dag klukkan 9:00.

Smelltu hér til að sjá leik karlaliðs KA um 5. sætið á mótinu

Kvennalið KA mætti Brøndby VK á föstudaginn í leik sem tapaðist 0-3, þær tölur gefa þó enga mynd af leiknum þar sem allar þrjár hrinurnar voru gríðarlega jafnar og spennandi. Sú fyrsta fór 20-25, önnur hrina fór 23-25 og sú þriðja 19-25. Mikið svekkelsi að ná ekki hrinu en Brøndby vann einnig 3-0 sigur á liði Oslo Volley sem gerði það að verkum að lokaleikurinn í riðlinum var hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitum.

KA vann sterkan 25-23 sigur í fyrstu hrinu í leiknum gegn Oslo Volley og útlit fyrir gríðarlega spennandi og skemmtilegan leik. Norska liðið tókst að jafna leikinn eftir 26-28 sigur í annarri hrinu en stelpurnar okkar tóku aftur forystuna með 26-24 sigri í þriðju hrinu. Staðan orðin ansi góð og klárt að okkar lið var staðráðið að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

En þær Norsku höfðu ekki lagt árar í bát og þær knúðu fram oddahrinu með 20-25 sigri í fjórðu hrinu. Á endanum tókst þeim svo að sækja sigurinn með 11-15 sigri í oddahrinunni og ákaflega svekkjandi 2-3 tap staðreynd eftir flotta frammistöðu.

KA liðið leikur því um 5. sætið í dag klukkan 9:00 þegar liðið mætir Team Køge sem endaði í 3. sæti í hinum riðlinum.

Smelltu hér til að sjá leik kvennaliðs KA um 5. sætið á mótinu


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband