KA Meistari Meistaranna eftir 3-0 sigur

Blak
KA Meistari Meistaranna eftir 3-0 sigur
Fyrsti titill vetrarins í höfn!

Blaktímabilið hófst í dag þegar keppt var um titilinn Meistari Meistaranna á Húsavík. Karlalið KA vann alla þrjá stóru titlana á síðustu leiktíð og þurfti því að mæta HK sem varð í 2. sæti í öllum keppnum síðasta vetrar.

KA - HK 3-0
1-0: 25-22
2-0: 25-22
3-0: 25-19

KA liðið er gríðarlega vel mannað í ár rétt eins og í fyrra og fóru strákarnir vel af stað í dag, komust snemma í 10-4 og HK tók leikhlé. KA hélt í kjölfarið 4-5 stiga forskoti og hafði gott tak á leiknum. En í stöðunni 19-15 kom áhlaup frá Kópavogsbúum og þeir jöfnuðu skyndilega í 19-19 og spennan mikil.

Eftir nokkur mistök hjá báðum liðum á lokakaflanum reyndist KA liðið sterkara og vann að lokum fyrstu hrinuna 25-22 og var mönnum létt eftir að hafa verið í góðri stöðu nær alla hrinuna.

Næsta hrina fór fjörlega af stað en eftir að HK hafði komist 2-3 yfir kom svakalegur kafli hjá KA liðinu sem skoraði næstu níu stig og komst í 11-3. En eins og í síðustu hrinu þá héldu Kópavogsbúar áfram að reyna fyrir sér og þeir voru ekki lengi að minnka muninn í 12-9 og svo 15-14.

Strákarnir okkar gáfu þá loksins aftur í og komust í 22-15, stuttu síðar skoraði Alexander Arnar gott sóknarstig fyrir KA sem breytti stöðunni í 24-18 og sigurinn í hrinunni innan seilingar. Næstu fjögur stig voru HK-inga en það dugði ekki því Sigþór Helgason innsiglaði sigurinn með góðu stigi og KA komið í 2-0.

Jafnræði var með liðunum lengi vel í þriðju þrinu en KA leiddi þó nær allan tímann og hafði ágætt tak á hrinunni rétt eins og í þeim fyrri. En það var eiginlega bara tímaspursmál hvenær KA liðið myndi ná góðum kafla og gera útum leikinn. Hann kom seint en þá breyttist staðan úr 18-17 yfir í 24-17 og sigurinn í raun tryggður. Lokatölur voru 25-19 og frekar sannfærandi 3-0 sigur KA staðreynd.

KA liðið er því Meistari Meistaranna þetta tímabilið og lítur frekar vel út fyrir tímabilið. Deildin hefst reyndar ekki fyrr en eftir um mánuð og því enn góður tími til að slípa liðið betur saman.

Stigaskorið dreifðist vel í liðinu en Miguel Mateo Castrillo gerði 12, Alexander Arnar Þórisson 9, Sigþór Helgason 7, Stefano Nassini Hidalgo 6, Filip Pawel 6 og Mason Casner 4.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband