KA og KA/Þór fengu útileik í bikarnum

Handbolti

Dregið var í 16-liða úrslit Coca-Cola bikars karla og kvenna í handboltanum í hádeginu og voru KA og KA/Þór að sjálfsögðu í pottinum. Bæði lið fengu andstæðing úr neðri deild en samkvæmt reglum bikarkeppninnar fær það lið sem er deild neðar ávallt heimaleik og því útileikir framundan.

Karlalið KA mætir Vængjum Júpíters en þeir eru næstneðstir í Grill66 deildinni með 6 stig eftir 12 leiki. Vængir Júpíters tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitunum með 23-31 útisigri á ÍBV 2 í Vestmannaeyjum en KA vann 23-26 sigur í bæjarslag gegn Þór í Höllinni. Á sama tíma var dregið í 8-liða úrslit þannig að ef KA vinnur Vængi Júpíters mæta strákarnir annaðhvort Gróttu eða Stjörnunni.

Kvennalið KA/Þórs mætir hinsvegar Fjölni/Fylki en Fjölnir/Fylkir er í næstneðsta sæti Grill66 deildarinnar með 6 stig eftir 13 leiki. Þetta er fyrsta umferðin hjá konunum og verður spennandi að sjá hvort stelpurnar nái að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar þær fóru í úrslitaleikinn. Slái þær út lið Fjölnis/Fylkis munu þær mæta Aftureldingu eða Stjörnunni í 8-liða úrslitunum.

Áætlað er að leikirnir í 16-liða úrslitunum fari fram 8. og 9. apríl næstkomandi og 8-liða úrslitin svo strax í kjölfarið þann 11. apríl.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband