KA/Þór fær stórlið Fram í heimsókn

Handbolti

Það er skammt stórra högga á milli hjá KA/Þór í Olís deild kvenna í handboltanum en á morgun, föstudag, fá stelpurnar Íslandsmeistara Fram í heimsókn. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og má búast við hörkuleik.

Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrri viðureign liðanna í KA-Heimilinu í magnþrunginni stemningu og ljóst að stelpurnar þurfa aftur á þeim stuðningi að halda til að landa öðrum eins sigri.

Aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildinni og situr okkar lið í 5. sæti og er fjórum stigum frá sæti í úrslitakeppninni. Draumurinn um úrslitakeppnina er veikur en þó er enn smá von en til að komast upp fyrir ÍBV sem er í 4. sætinu þurfa stelpurnar að enda með fleiri stig en ÍBV og þá þurfa þær minnst 5 stig af 6 mögulegum og ÍBV má ekki fá fleiri stig.

Árangurinn í vetur er búinn að vera stórkostlegur en liðinu var spáð neðsta sæti deildarinnar af flestum sérfræðingum fyrir veturinn en stelpurnar hafa heldur betur blásið á þær hrakspár og eru klárlega eitt af 5 bestu liðum landsins.

Við hvetjum ykkur eindregið til að mæta í KA-Heimilið á morgun og styðja stelpurnar, leikurinn er næstsíðasti heimaleikurinn í deildinni og mikilvægt að við klárum veturinn með trompi enda hefur stemningin verið frábær í vetur.

Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni á KA-TV fyrir þá sem ekki komast á leikinn, útsendingin aðgengileg hér fyrir neðan:


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband