KA/Þór í bikarúrslit í 3. flokki!

Handbolti
KA/Þór í bikarúrslit í 3. flokki!
Sigurgleðin var allsráðandi, bikarúrslit framundan

KA/Þór tók á móti HK í undanúrslitum bikarkeppni 3. flokks kvenna í handbolta í gærkvöldi. Stelpurnar höfðu áður slegið út sterkt lið Fram og voru staðráðnar í að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum sjálfum en HK er einnig gríðarlega vel mannað og úr varð svakalegur leikur sem lauk með sigurmarki á lokasekúndunni.

Liðin áttust við fyrr um daginn í meistaraflokki og voru þó nokkrar stelpur úr báðum liðum sem léku listir sínar í þeim leik og því áhugavert að sjá hve mikil orka væri eftir á tanknum er komið var í þennan leik.

KA/Þór byrjaði leikinn betur og leiddi á upphafsmínútunum en þegar leið tók á fyrri hálfleikinn tóku gestirnir framúr og HK leiddi 12-14 er liðin gengu til búningsherbergja sinna. Aftur voru það svo okkar stelpur sem byrjuðu betur og þær náðu tveggja marka forskoti og útlitið gott fyrir lokasprettinn.

En aftur sneru gestirnir leiknum við og þær gerðu fjögur mörk í röð í stöðunni 20-18 og komust yfir í 20-22. Í kjölfarið var jafnt á öllum tölum og spennan í KA-Heimilinu var gríðarleg. KA/Þór var með boltann á lokamínútunni í stöðunni 24-24 og uppskar vítakast er 10 sekúndur lifðu leiks, ekki tókst að nýta það en Rakel Sara Elvarsdóttir náði frákastinu og skoraði af miklu harðfylgi sem reyndist sigurmark leiksins.

Stelpurnar unnu þar með 25-24 og eru komnar í úrslitaleikinn sem er algjörlega stórkostlegur árangur. Liðið sýndi mikinn karakter að vinna þennan erfiða leik enda var mikið um sveiflur og oft sem að stelpurnar komu til baka eftir að hafa misst HK liðið aðeins framúr sér.

Það eru því ansi skemmtilegir dagar framundan í Laugardalshöllinni en KA/Þór er komið í undanúrslit í meistaraflokki auk þess sem KA í 4. flokki karla getur á miðvikudaginn tryggt sér sæti í úrslitaleiknum í þeim flokki.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband