KA/Þór með góðan útisigur á Selfossi

Handbolti
KA/Þór með góðan útisigur á Selfossi
Frábær sigur staðreynd! (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór sótti Selfyssinga heim í 4. umferð Olís deildar kvenna í kvöld. Fyrir leikinn munaði einungis einu stigi á liðunum og ljóst að það væru ansi mikilvæg stig í húfi. Þór/KA hafði unnið fyrsta útileik vetrarins og eftir tapið í síðustu umferð var hungrið svo sannarlega mikið í hópnum að sækja sigur í kvöld.

Leikurinn var hnífjafn í upphafi og var greinilegt að bæði lið ætluðu sér sigurinn en heimastúlkur voru án sigurs fyrir leik. Þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu stelpurnar góðu taki á leiknum, spiluðu flotta vörn og fyrir aftan hana var Olgica Andrijasevic í stuði en hún var með um 43% markvörslu í dag.

Stelpurnar náðu mest 5 marka forskoti og var spilamennskan ansi góð, hálfleikstölur voru 9-13 og útlitið ansi gott. Jónatan og Þorvaldur höfðu greinilega farið vel yfir spilamennsku Selfyssinga og virtist sem liðið hefði svör við flestöllum brögðum Selfyssinga.

Enn bættist við forskotið í upphafi þess síðari en fljótlega komust stelpurnar í 9-16 en þá kom áhlaup frá heimastúlkum. Mest náðu þær að minnka muninn niður í 3 mörk en það var ekki nóg og á endanum vannst frábær 18-23 útisigur sem var ansi hreint sannfærandi.

Stelpurnar spiluðu mjög góðan leik og það í 60 mínútur, liðið hefur sýnt það að þegar þær spila sinn bolta þá eiga þær fullt erindi í öll liðin í deildinni en í báðum tapleikjum vetrarins hefur komið slæmur kafli sem kostaði leikinn. Sem betur fer var ekkert um slíkt í kvöld og frábær 2 stig í hús.

Liðið er því komið með 4 stig í deildinni og vonandi halda stelpurnar áfram að bæta sig og ná upp stöðugleika.

Mörk KA/Þórs:
Martha Hermannsdóttir 9 mörk, Katrín Vilhjálmsdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Þórunn Eva Sveinbjörnsdóttir 1 og Rakel Sara Elvarsdóttir 1 mark.
Í markinu varði Olgica Andrijasevic 14 skot, þar af 2 vítaköst.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband