KA/Þór sótti góðan sigur í Mosó

Handbolti
KA/Þór sótti góðan sigur í Mosó
Stelpurnar ansi sáttar að leik loknum!

KA/Þór sótti Aftureldingu heim í 7. umferð Olís deildar kvenna í dag og má svo sannarlega segja að mikið hafi verið undir hjá báðum liðum. Fyrir leikinn var KA/Þór í 4. sæti deildarinnar en gríðarleg barátta er framundan um sæti í úrslitakeppninni í vor og þurfti liðið því á stigunum tveim að halda. Heimastúlkur voru hinsvegar stigalausar á botninu og ætluðu sér stigin til að koma sér inn í baráttuna.

Stelpurnar voru ekki lengi að ná góðu taki á leiknum og komust snemma í fjögurra marka forystu. Haraldur Þorvarðarson þjálfari Aftureldingar reyndi að ná áttum með leikhléi snemma leiks en það skilaði litlu sem engu því stelpurnar okkar héldu áfram að spila góða vörn sem skilaði svo auðveldum mörkum í kjölfarið.

Staðan var 10-19 þegar flautað var til hálfleiks og leikurinn í raun búinn, hrikalega vel gert hjá okkar liði að gefa ekkert eftir og gera útum leikinn strax. Munurinn varð mestur ellefu mörk í síðari hálfleik og voru liðin í raun bara að bíða eftir lokaflautinu enda öll spenna úr leiknum. Lokatölur voru 21-30 og ákaflega mikilvæg tvö stig í hús hjá okkar magnaða liði.

Stelpurnar eru því áfram í 4. sætinu mikilvæga nú þegar einn þriðji er búinn af mótinu. Liðið er með tveggja stiga forskot á HK sem er í 5. sætinu og er á sama tíma aðeins tveimur stigum á eftir Stjörnunni sem hefur aðeins gefið eftir og situr í 3. sæti.

Það er ljóst að stelpurnar eru í hörkustandi og ef þær halda áfram að spila jafn vel og þær hafa verið að gera í síðustu leikjum verður liðið í flottri stöðu á að komast í úrslitakeppnina í vor. Gunnar Líndal þjálfari liðsins getur verið afar stoltur af þessari byrjun og getur liðið mætt óhrætt í útileikinn gegn Fram þann 9. nóvember.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband