Tap staðreynd þrátt fyrir góðan leik KA/Þórs

Handbolti
Tap staðreynd þrátt fyrir góðan leik KA/Þórs
Góður leikur þrátt fyrir tap (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór lék lokaleik sinn í Olís deild kvenna fyrir jólafrí er liðið sótti annað af toppliðum deildarinnar, ÍBV, heim til Vestmannaeyja. Það var búist við erfiðum leik hjá okkar liði enda ÍBV verið að leika mjög vel að undanförnu og hafði einmitt unnið fyrri leik liðanna 26-34 í KA-Heimilinu.

Leikurinn fór frábærlega af stað og komst okkar lið í 4-8 og útlitið ansi hreint gott. En heimastúlkur eru gríðarlega öflugar og þær sneru leiknum sér í vil og leiddu 13-11 er flautað var til hálfleiks. Ekki ósvipað því sem gerðist í KA-Heimilinu þegar KA/Þór byrjaði leikinn betur og leiddi en ÍBV komst betur í takt við leikinn og tók stjórnina í kjölfarið.

En sem betur fer héldu stelpurnar okkar mun betur í við ÍBV í þessum leik og úr varð hörkuleikur. ÍBV hélt áfram að leiða leikinn en stelpurnar voru aldrei langt undan og áttu möguleika á að fá eitthvað útúr leiknum fram á síðustu sekúndurnar.

Lukkudísirnar voru hinsvegar ekki á okkar bandi og ÍBV fór að lokum með 28-25 sigur og er því áfram á toppi deildarinnar ásamt Val. KA/Þór er hinsvegar áfram með 8 stig í 5. sætinu og framundan ansi hörð barátta um að sleppa við fall en Stjarnan er aðeins tveimur stigum á eftir í 7. sætinu en það sæti fer í umspil um að halda sæti sínu í deild þeirra bestu.

Það er því komið jólafrí hjá stelpunum og það verður að viðurkennast að staðan er ansi hreint góð. Fyrir tímabilið var liðinu spáð beint niður eða í umspil og verða sigrarnir fjórir því að teljast ansi hreint góð frammistaða. Auk þess hefur liðið gert ákaflega vel í að vera inn í flestum öðrum leikjum vetrarins og gæti hæglega verið með fleiri stig en raun ber vitni.

Næsti leikur er heimaleikur gegn Selfoss á sjálfan afmælisdag KA, 8. janúar, og verður ákaflega gaman að sjá hvort liðið komi jafn vel til leiks eftir hlé eins og liðið gerði á þessum fyrri hluta tímabilsins.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 8, Katrín Vilhjálmsdóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 og Ólöf Marín Hlynsdóttir 1 mark.

Í markinu varði Olgica Andrijasevic 9 skot, Selma Malmquist Sigurðardóttir reyndi við eitt víti en tókst ekki að verja.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband