KA vann Þór 5-1 og er Kjarnafæðismótsmeistari

Fótbolti
KA vann Þór 5-1 og er Kjarnafæðismótsmeistari
Almarr hampar bikarnum (mynd: Þórir Tryggva)

KA og Þór mættust í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins í Boganum á laugardaginn. KA dugði jafntefli til að tryggja sigur sinn á mótinu en liðið var með fullt hús stiga eftir fyrstu fimm leiki sína á mótinu og stillti Óli Stefán Flóventsson upp sterku liði í bæjarslagnum.

Strákarnir hófu leikinn af krafti og fengu Þórsarar lítið sem ekkert að hafa boltann á upphafsmínútum leiksins. KA liðið sýndi þolinmæði, lét boltann ganga og beið eftir tækifæri á að gera fyrsta mark leiksins. Það kom á 22. mínútu þegar Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði eftir mistök Arons Birkis Stefánssonar í marki Þórs uppúr hornspyrnu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Forysta KA liðsins verðskulduð en í kjölfar marksins gaf liðið eftir og Þórsarar komu sér betur inn í leikinn. Á endanum jafnaði Jakob Snær Árnason metin með laglegu skoti fyrir utan teig og var staðan 1-1 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.

Strákarnir fundu aftur taktinn eftir hléið og Hallgrímur Jónasson kom KA aftur yfir á 68. mínútu þegar hann fékk boltann á fjærstönginni eftir hornspyrnu. Þegar leið á leikinn virtist krafturinn í Þórsliðinu fara hverfandi en KA var mun meira með boltann og það tók greinilega mikla orku úr Þórsliðinu að elta.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna Friðjónssonar frá leiknum

Bjarni Aðalsteinsson átti hörkuskot á 83. mínútu sem fór af Bjarka Þór Viðarssyni og í netið og staðan skyndilega orðin 3-1. Gunnar Örvar Stefánsson gulltryggði svo sætan sigur KA með tveimur mörkum á lokamínútunum og lokatölur því 5-1. KA vann þar með alla leiki sína í mótinu annað árið í röð en minnsti sigur liðsins var 3-0 á Leikni Fáskrúðsfirði.

Í heildina mjög flott frammistaða og afar sannfærandi sigur á nágrönnum okkar í Þór staðreynd. Það var flott að sjá hvernig liðið kom sér aftur í gang í síðari hálfleik eftir að hafa dottið aðeins niður síðari hluta fyrri hálfleiks og verður gaman að fylgjast með liðinu í komandi leikjum í Lengjubikarnum. Þar er KA með Víking, Fylki, Fram, Keflavík og Magna í riðli og flott að fá þar tvo leiki gegn liðum í efstu deild.

Fyrsti leikur KA í Lengjubikarnum er gegn Fylki í Boganum laugardaginn 15. febrúar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband