Karen María skoraði og U19 fór áfram

Fótbolti
Karen María skoraði og U19 fór áfram
Flott frammistaða hjá Kareni (mynd: Sævar Geir)

Karen María Sigurgeirsdóttir lék með U19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu sem lék í undankeppni EM 2020. Undankeppnin fór fram hér á Íslandi en auk Íslands kepptust Spánn, Grikkland og Kasakstan um sæti í milliriðlum keppninnar.

Fyrst léku stelpurnar gegn Grikkjum og vannst sá leikur 6-0 eftir að staðan hafði verið 3-0 í hálfleik. Karen María byrjaði á bekknum en kom inná í seinni hálfleik og lét til sín taka.

Næsti leikur var gegn Kasakstan og var ljóst fyrir leikinn að með sigri væri Íslenska liðið öruggt með sæti í næstu umferð en tvö efstu liðin fara áfram í milliriðla. Karen María var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn í öruggum 7-0 sigri Íslands. Karen María gerði gott betur en að spila allan leikinn því hún skoraði fjórða mark Íslands í leiknum.

Lokaleikurinn var svo úrslitaleikur við Spán um sigur í undanriðlinum. Karen María byrjaði á bekknum og kom inná í síðari hálfleik en það dugði því miður ekki því Spánverjar unnu 0-3 sigur og tryggðu sér þar með sigur í riðlinum.

En takmarkinu var náð og stelpurnar fara því áfram í milliriðla EM 2020 og verður spennandi að fylgjast áfram með þessu öfluga liði okkar. Við óskum Karenu sem og stelpunum öllum til hamingju með þennan flotta árangur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband