Lengjubikarinn úti hjá KA og Þór/KA

Fótbolti
Lengjubikarinn úti hjá KA og Þór/KA
Herslumuninn vantaði í dag (mynd: Egill Bjarni)

KA og Þór/KA léku bæði á útivelli í Lengjubikarnum í dag en KA mætti Breiðablik í 8-liða úrslitunum karlamegin en Þór/KA sótti Fylki heim í næstsíðustu umferð riðlakeppninnar.

Breiðablik hóf leikinn betur á Kópavogsvelli og kom ekki mikið á óvart þegar þeir gerðu fyrsta mark leiksins á 38. mínútu er Jason Daði Svanþórsson kom boltanum í netið eftir laglega sendingu frá Thomas Mikkelsen. Það var hinsvegar grautfúlt að fá strax annað mark í bakið er Viktor Karl Einarsson tvöfaldaði forystuna á 40. mínútu og hálfleikstölur því 2-0.

En KA liðið kom af krafti inn í síðari hálfleikinn og það leið ekki á löngu uns Rodrigo Gomes Mateo hafði lagað stöðuna í 2-1 eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni.

Um miðbik síðari hálfleiks fékk svo Daníel Hafsteinsson fínt færi en Viktor Örn varnarmaður Blika náði að kasta sér fyrir skotið og kom líklega í veg fyrir mark. Strákarnir réðu algjörlega ferðinni í síðari hálfleik og virtist allt stefna í að þeim tækist að jafna metin.

Það hefði líklega átt að gerast í upphafi uppbótartíma er Elfar Árni Aðalsteinsson renndi boltanum fyrir markið og Steinþór Freyr Þorsteinsson sem kom á strauinu fékk færi fyrir opnu marki en tókst ekki að stýra boltanum í netið. Skömmu síðar var Elfari Árna ýtt innan teigs en ekkert var dæmt og lokatölur því 2-1 fyrir Breiðablik sem fer því áfram í undanúrslitin á kostnað KA.

Margt jákvætt í spilamennsku liðsins í dag en Breiðablik er með ógnarsterkt lið í ár og til alls líklegt. Það eru ekki mörg lið sem geta stýrt leik gegn Blikum eins og strákarnir gerðu í þeim síðari og klárt að Arnar Grétarsson getur byggt á þessum leik. Lengjubikarsævintýrið er úti þetta árið en úrslitaleikur Kjarnafæðismótsins gegn Þór er framundan og það er alltaf skemmtilegt verkefni.

Þór/KA er hinsvegar einnig úr leik í Lengjubikarnum eftir 2-1 tap gegn Fylki í Árbænum en aðeins efstu tvö lið riðilsins fara áfram í undanúrslitin. Fylkir komst í 2-0 í dag með mörkum frá Þórdísi Elvu og Bryndísi Örnu og voru það hálfleikstölur. Hulda Ósk minnkaði muninn fyrir okkar lið á 59. mínútu en nær komust stelpurnar ekki og 2-1 tap því staðreynd.

Eftir tap dagsins er ljóst að það verða Breiðablik og Fylkir sem enda í efstu sætunum. Þór/KA á hinsvegar eftir einn leik og það gegn Stjörnunni en liðin eru jöfn að stigum í 3. og 4. sætinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband