Myndaveisla frá bikarslag KA og Þórs í 4. flokki

Handbolti
Myndaveisla frá bikarslag KA og Þórs í 4. flokki
Það vantaði hársbreidd í dag (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Þór í hörkubikarslag í 4. flokki karla í KA-Heimilinu í dag. Eins og svo oft áður þegar þessi lið mætast varð háspennuleikur og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins. Þórir Tryggvason ljósmyndari var á svæðinu og er hægt að skoða myndir hans frá leiknum með því að smella á myndina hér fyrir neðan.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

KA liðið hóf leikinn betur og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður leiddu strákarnir 6-4 og útlitið frekar gott. Þá hrökk hinsvegar allt í baklás og strákarnir skoruðu ekki mark í rúmar níu mínútur. Þetta nýttu Þórsarar sér vel og þeir breyttu stöðunni í 6-8. Í kjölfarið juku þeir muninn upp í fjögur mörk og hálfleikstölur voru því 7-11.

Þetta fjögurra marka forskot hélst milli liðanna í upphafi síðari hálfleiks og stefndi því allt í sigur Þórs. Er rúmt kortér lifði leiks var staðan 10-14 en þá kom magnaður kafli hjá strákunum sem jöfnuðu leikinn í 14-14 og aftur í 15-15. Spennan var gríðarleg í leiknum og stemningin á pöllunum eftir því.

Þórsarar leiddu 17-18 og voru með boltann þegar lokamínútan gekk í garð en þeir misstu boltann er rúmar tíu sekúndur voru eftir af leiknum og KA liðið fékk því möguleika á að knýja fram framlengingu. Það tókst á endanum ekki og svekkjandi tap staðreynd fyrir strákana.

Það verður þó að hrósa KA liðinu fyrir baráttuandann og með aðeins færri töpuðum boltum hefði leikurinn getað farið á annan veg. Þó nokkrir strákar í KA liðinu eru enn á yngra ári og hafa þeir bætt sig gríðarlega síðasta árið. Þeir geta því borið höfuðið hátt þó þessi leikur hafi tapast og á sama tíma óskum við Þórsurum til hamingju með sætið í næstu umferð bikarsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband