Óðinn og Rut best á lokahófi KA og KA/Þórs

Handbolti
Óðinn og Rut best á lokahófi KA og KA/Þórs
Rakel Sara, Óðinn, Rut og Bruno með verðlaun sín

Handknattleiksdeild KA hélt lokahóf sitt á Vitanum í gærkvöldi þar sem nýloknu tímabili hjá KA og KA/Þór var fagnað. Karlalið KA heldur áfram að stíga mikilvæg skref áfram í sinni þróun en strákarnir léku til úrslita í bikarnum og féllu á endanum út í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar með minnsta mun í oddaleik gegn Haukum.

Kvennalið KA/Þórs tryggði sér bikarmeistaratitilinn í fyrsta skiptið í október mánuði og lék í fyrsta skiptið í Evrópukeppni er stelpurnar slógu út Kósóvómeistarana og féllu að lokum úr leik eftir hörkubaráttu við spænsku bikarmeistarana. Tímabilinu lauk svo eftir hörkubaráttu við Val í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Óðinn Þór Ríkharðsson var valinn besti leikmaður karlaliðs KA en hann átti heldur betur frábæra innkomu inn í liðið og varð markakóngur Olísdeildarinnar með 149 mörk eða 7,1 mark að meðaltali í leik auk þess að vera valinn besti hægri hornamaður deildarinnar.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir var valin besti leikmaður kvennaliðs KA/Þórs en Rut átti annað stórbrotið tímabil með liðinu en auk þess að spila frábærlega þá lyftir hún liðsfélögum sínum upp á hærri stall. Þá var Rut valin handknattleikskona ársins 2021 sem hún er svo sannarlega vel að komin.

Bruno Bernat var valinn efnilegasti leikmaður KA en Bruno sem er 20 ára gamall markvörður steig heldur betur upp í vetur og vakti verðskulda athygli fyrir framgöngu sína.

Rakel Sara Elvarsdóttir var valin efnilegasti leikmaður KA/Þórs en hún hlaut þann sama heiður í fyrra einnig. Rakel Sara sem er 19 ára gömul er gríðarlega metnaðarfull en hún var markahæsti leikmaður KA/Þórs í vetur með 169 mörk.

Einar Rafn Eiðsson og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir voru valin bestu liðsfélagaranir en auk framgöngu sinnar á vellinum hafa þau unnið mikið starf í kringum liðin og eru ómetanleg í klefanum.

Sex leikmenn léku með A-landsliðum Íslands í vetur og voru þau heiðruð fyrir afrekið. Óðinn Þór Ríkharðsson fyrir KA og þær Ásdís Guðmundsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir, Unnur Ómarsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir fyrir KA/Þór en Aldís var ekki viðstödd.

Martha Hermannsdóttir lék sinn 300 leik fyrir félagið á tímabilinu og var heiðruð af stjórn KA/Þórs. Þá voru þær Arna Valgerður Erlingsdóttir, Hulda Bryndís Tryggvadóttir, Anna Þyrí Halldórsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir, Unnur Ómarsdóttir, Katrín Vilhjálmsdóttir, Erla Hleiður Tryggvadóttir og Ásdís Guðmundsdóttir heiðraðar fyrir 100 leiki fyrir KA/Þór en einnig hafa þær Aldís Ásta Heimisdóttir, Sunna Guðrún Pétursdóttir, Ásdís Sigurðardóttir, Inga Dís Sigurðardóttir, Sandra Kristín Jóhannesdóttir og Selma Sigurðardóttir Malmquist náð því afreki.

Andri Snær Stefánsson og Jón Heiðar Sigurðsson voru heiðraðir fyrir sitt framlag til KA en þeir hafa nú báðir lagt skóna á hilluna. Við reiknum þó að sjálfsögðu með að sjá mikið til þeirra í kringum félagið enda gríðarlegir félagsmenn sem lifa svo sannarlega fyrir KA.

Þeir Magnús Sigurður Sigurólason og Sigurður Einar Tryggvason stóðu vaktina á ritaraborðinu að vanda og voru þökkuð góð störf.

Þá kvöddum við nokkra leikmann sem eru að yfirgefa okkur. Óðinn Þór Ríkharðsson gengur til liðs við svissneska stórliðið Kadetten Schaffhausen og Arnar Freyr Ársælsson gengur til liðs við Stjörnuna.

Þá mun Rakel Sara Elvarsdóttir leika með norska liðinu Volda auk þess að þær Ásdís Guðmundsdóttir og Anna Marý Jónsdóttir munu skipta um umhverfi á næstu leiktíð.

Þökkum þeim öllum fyrir þeirra framlag og vonum innilega að þau snúi aftur til okkar síðar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband