Ógleymanlegi fyrsti bikarsigur KA liðsins

Handbolti
Ógleymanlegi fyrsti bikarsigur KA liðsins
Erlingur og Sigmar lyfta bikarnum á loft

KA hampaði sínum fyrsta stóra titli í handboltanum þegar liðið varð Bikarmeistari árið 1995 eftir ótrúlega maraþonviðureign gegn Íslandsmeisturum Vals sem var tvíframlengdur og hefur oft verið nefndur sem besti úrslitaleikurinn í sögu íslensks handbolta.

Stemningin fyrir leiknum var gífurleg, KA sem hafði leikið sinn fyrsta bikarúrslitaleik árið áður var reynslunni ríkari eftir slæmt tap gegn FH og var mikið líf í KA-Heimilinu að útvega stuðningsmönnum miða á leikinn sem og að koma upp ferðum á leikinn sjálfan. Stemningin var einnig mikil hjá liðinu sjálfu og voru þó nokkrir sem breyttu um hárstíl.

Hárstíllinn klikkaði þó hjá Patreki Jóhannessyni sem var krúnurakaður í bikarleiknum. Ástæðan var sú að hann lét lita á sér hárið, en litunin misheppnaðist og því lét hann raka allt hárið af sér. „Hárið átti að vera í KA-litunum, en það klikkaði svo rosalega og ég varð að raka það allt af. Ég gat ekki látið nokkurn mann sjá mig með mislitað hár. Ég ákvað því í samráði við konuna mína að raka það allt af. Ég held að ég sé skárri svona," sagði Patrekur.

Laugardalshöllin var smekkfull og stemningin ólýsanleg. KA-menn komu vel stemmdir í leikinn og náðu fljótlega afgerandi forystu og fór Alfreð Gíslason þar fyrir sínum mönnum. Hann dreif liðið áfram með sínum einstaka krafti og smitaði þannig út frá sér. Þegar 8 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 10-5 fyrir KA og stefndi í stórsigur. En Valsmenn söxuðu forskotið niður í tvö mörk fyrir hlé og hálfleikstölur voru því 12-10.

Þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik voru Valsmenn búnir að jafna í 12-12. Þá hrökk Patrekur í gang, en hann fór sér frekar hægt í fyrri hálfleik. Hann gerði þrjú mörk á skömmum tíma og aftur var KA komið með tögl og hagldir. En seiglan í Valsliðinu var enn til staðar og aftur var jafnt, 17-17 og 19-19. Dagur kom Val loks yfir í 19-20 þegar rúmlega ein mínúta var eftir en Patrekur jafnaði, 20-20 og enn 45 sekúndur eftir og allt á suðupunkti. Í næstu sókn Valsmanna varði Sigmar Þröstur frá Degi og KA-menn brunuðu upp og Patrekur sótti vítakast. Valdimar tók vítið þegar leiktíminn var úti en Guðmundur varði og því var framlengt.

Jón Kristjánsson gerði fyrsta markið fyrir Val í framlengingunni og í næstu sókn varði Guðmundur af línunni frá Leó Erni. Dagur fékk tækifæri til að auka forskot Vals í tvö mörk, en skaut í stöng og Patrekur svaraði með tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks, 22-21. Patrekur var aftur í aðalhlutverki eftir hlé og kom KA í 24-21 þegar skammt var eftir. Á þessum tímapunkti voru KA-menn farnir að fagna, en það var aðeins of snemmt því Valsmenn voru ekki búnir að leggja árar í bát. Þeir léku maður á mann og uppskáru þrjú mörk áður en tíminn var úti og enn var því framlengt.

Patrekur kom KA yfír í 25-24 og í næstu sókn varði Sigmar Þröstur vítakast frá Degi. Valdimar renndi sér inn á línuna og fékk sendingu frá Alfreð sem hann skilaði í markið, 26-24. Valgarð minnkaði muninn fyrir Val úr vítakasti. Alfreð kom KA í 27-25 og Jón Kristjánsson svaraði fyrir Val, 27-26. í síðari hálfleik í síðari framlengingunni gekk hvorki né rak og sáu markverðir liðanna til þess. KA hampaði því að lokum bikarnum og var það mjög verðskuldað.

Gríðarleg fagnaðarlæti fylgdu í kjölfarið, gólfið á Laugardalshöllinni varð gult af öllum þeim fjölda KA-manna sem þustu inn á gólfið. Þá má með sanni segja að bæjarhátíð hafi farið fram á Akureyri og tóku rúmlega 300 manns við liðinu á Akureyrarflugvelli og hylltu hetjurnar sínar. Í kjölfarið var fagnað langt fram á nótt.

Aldrei verið eins þreyttur

„Þá er þessi eftirsótti titill loksins kominn í höfn," sagði Alfreð Gíslason, þjálfari og leikmaður KA-manna, örþreyttur eftir leikinn. „Þetta var ansi erfið fæðing og hún gerði næstum útaf við mig. Eg hefði ekki getað spilað mínútu lengur, ég var alveg gjörsamlega búinn og held að ég hafi aldrei áður verið eins þreyttur eftir nokkurn leik. Ég var kominn með sinadrátt í báða kálfana," sagði þjálfarinn ísigurvímu eftir leikinn.

Alfreð sagðist hafa verið orðinn ansi hræddur um að lið hans myndi klúðra þessum leik eftir fyrri framlenginguna. „Við vorum tvisvar með unninn leik í höndunum en klúðruðum í bæði skiptin og þá hélt ég að þetta væri búið hjá okkur. Ég er mjög stoltur af mínum strákum að þeir skyldu taka áföllunum svona vel og halda áfram og gáfust aldrei upp. Ég held að það sé ekki hægt að fá betri auglýsingu fyrir handboltann en þennan leik. Valsmenn eru með algjört topplið og ég held að leikurinn í heild hafi verið frábær. Þetta var alvöru handbolti, sterkur varnarleikur, markvarslan góð og hann bauð upp allt sem einkennir góðan leik."

„Ég hafði allan tímann trú á að við gætum unnió hvað sem gekk á í leiknum. Ég var að spila minn besta leik í vetur enda reynt að byggja mig upp fyrir þennan leik með því að taka því rólega. Ég vil ekkert segja á þessari stundu um hvort ég held áfram að spila fyrst við erum komnir í Evrópukeppni en miðað við líðan mína núna þá finnst mér eins og ég eigi aldrei eftir að spila handbolta framar."

Bikarmeistarar 1995
Bikarmeistarar 1995, aftari röð frá vinstri: Atli Þór Samúelsson, Alfreð Gíslason, Þorvaldur Þorvaldsson, Patrekur Jóhannesson, Helgi Arason, Leó Örn Þorleifsson, Árni Stefánsson. Fremri röð: Jóhann G. Jóhannsson, Valdimar Grímsson, Sigmar Þröstur Óskarsson, Erlingur Kristjánsson, Björn Björnsson, Einvarður Jóhannsson, Valur Arnarson.

Tókst í þriðju tilraun

Valdimar Grímsson var að vonum ánægður eftir leikinn. „Það er bara eitt orð yfir þetta; Frábært. Þetta var rosalega spennandi leikur. Það má segja að við köstuðum sigrinum frá okkur tvisvar áðar en það tókst loks í þriðju tilraun. Sennilega hefur það verið reynsluleysi okkar að ná ekki að klára þetta í fyrstu tilraun. En við lærðum með hverri framlengingunni og vissum hvað við gerðum rangt og slepptum bikarnum ekki frá okkur. Sigurinn var fyrst og fremst liðsheildarinnar. Við lögðumst allir á eitt og það komst aldrei innfyrir okkar dyr að tapa þessum leik.

Ég hef unnið marga titla með Val og þó svo að hver þeirra sé stórmerkilegur verð ég að viðurkenna að þetta er einn af þeim sætari vegna þess að þetta er fyrsti titill sem KA vinnur í handbolta og það er gaman að eiga þátt í því. Það er líka gaman að stuðla að því að handboltinn brjóti sig út úr þessari þriggja liða hefð. Ég held að allir, jafnt áhorfendur sem leikmenn, hafi fengið allt sem hægt var að fá út úr þessum leik," sagði Valdimar.

Frábær tilfinning

„Þegar ég hampaði titlinum með KA í fótboltanum árið 1989 var það mjög óvænt en í svona leikjum er allt lagt undir og því meira upplifelsi. Það flögraði óneitanlega að manni að við ættum hreinlega ekki að vinna leikinn en með mikilli samstóðu og baráttuvilja tókst okkur það. Ég er búinn að spila með KA í 14 ár í meistaraflokki án þess að vinna neitt stórt og það er frábær tilfinning að þessi titill skuli nú í höfn" sagði Erlingur Kristjánsson fyrirliði KA.

Þessi leikur líður manni seint úr minni

Patrekur Jóhannesson KA: „Þetta er minn fyrsti titill og ég er rosalega ánægður með að þetta skyldi ganga svona upp. Þetta er fyrsta árið mitt með nýju félagi og segir mér ekki neitt annað en það að ákvörðun mín um að skipta fyrir tímabilið hafi verið rétt. Ég var ánægður með eigin frammistöðu, stemmningin í liðinu var frábær og menn voru virkilega að spila með KA-hjartanu. Jóhann Ingi Gunnarsson var fenginn til það að messa aðeins yfir okkur í hádeginu í dag og það hjálpaði mér mikið" sagði sigurreifur Patrekur Jóhannesson að leik loknum.

Vorum tilbúnir í slaginn

Sigmar Þröstur Óskarsson, markvörður, átti mjög góðan leik og varði 23 skot og þaraf 4 vítaskot. „Ég fann mig mjög vel. Vörnin var líka mjög góð fyrir fram og gerði mér auðveldara með að komast inní leikinn í byrjun," sagði Sigmar Þröstur. „Við stjórnuðum leiknum nær allan tímann. Þetta var orðið mjög spennandi í lokin. Við fengum tvívegis tækifæri á að klára leikinn en klúðruðum því. Það var ekki hægt að klúðra þessu í þriðja sinn," sagði Sigmar. „Við trúðum því allan tímann að við gætum unnið. Við undirbjuggum okkur sérstaklega vel fyrir leikinn bæði andlega og líkamlega. Við vorum tilbúnir í þennan slag."

Nú hefur þú fagnað bikartitli bæði með ÍBV og Stjörnunni, var þessi sigur eitthvað öðruvísi? „Þessi var meira spennandi og „dramatískari" en hinir. Við náðum algjörum toppleik. Það hafa alltaf verið baráttuleikir milli þessara liða og þessi var engin undantekning. Þetta er í annað sinn sem ég tek þátt í að vinna bikar fyrir landsbyggðina, ætli ég fari ekki á Ísafjörð næst," sagði Sigmar og brosti. „Við munum standa okkur vel í Evrópukeppninni. Er ekki mottóið, eitt sinn KA-maður, ávallt KA-maður"?

Fyrst við töpuðum er ég ánægður að það var KA

Jón Kristjánsson sagði að leikurinn hafí verið mjög erfiður. „Við vorum frekar daprir í byrjun en svo komumst við inní leikinn og hann var ekkert ósvipaður og ég bjóst við. Við vorum líka svolítið smeykir við svörtu karlana fyrir leikinn og ég held að ástæðan fyrir þeim ótta hafi komið í ljós. Við vorum óþarflega oft útaf fyrir smábrot miðað við hörkuna sem leyfð var í leiknum. Þá fannst mér við fá að kenna frekar á því en þeir.

KA-menn spiluðu þennan leik mjög skynsamlega og áttu sigurinn skilið er upp var staðið. Auðvitað er maður alltaf sár að tapa en úr því að við urðum að tapa fyrir einhverju liði er ég ánægður að það skuli hafa verið KA," sagði Jón sem lék með KA áður en hann gekk til liðs við Val og varð meðal annars Íslandsmeistari með liðinu í knattspyrnu sumarið 1989.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband