Tap eftir hörkuleik að Ásvöllum

Handbolti
Tap eftir hörkuleik að Ásvöllum
Áki gerði 8 mörk í dag (mynd: Þórir Tryggva)

Það var erfitt verkefni sem beið KA í dag þegar liðið sótti stórlið Hauka heim í lokaleik liðanna fyrir jólafrí í Olís deildinni. Haukarnir hafa verið á miklu skriði eftir stórsigur KA í leik liðanna fyrr í vetur og eru þeir í harðri toppbaráttu á sama tíma og okkar lið berst fyrir því að halda sæti sínu í deildinni.

Leikurinn fór gríðarlega skemmtilega af stað, mikill hraði einkenndi leikinn og liðin skoruðu grimmt. Jafnt var á nánast öllum tölum og spennan mikil. Haukarnir voru iðulega fyrri til að skora en okkar lið gerði gríðarlega vel í að keyra í bakið á heimamönnum og refsa með hraðri miðju.

Undir lok fyrri hálfleiks tókst Haukunum aðeins að skilja okkur frá og leiddu 18-16 er flautað var til hálfleiks. Það var ljóst að það yrði erfitt að keppa við Haukana í 60 mínútur á þessum hraða og klárt að til að eiga möguleika á sigri þyrftu strákarnir að loka vörninni betur og fá upp markvörslu.

Síðari hálfleikur byrjaði vel og þegar rúmar 20 mínútur lifðu leiks var staðan jöfn 19-19. Þá kom hinsvegar slæmur kafli sem fór að miklu leiti með leikinn, Haukarnir gerðu næstu fjögur mörk og litu aldrei til baka eftir það.

Munurinn fór mest upp í sex mörk og á endanum unnu heimamenn 33-28 sigur. Margt jákvætt við frammistöðuna í dag og klárlega svekkjandi að fá ekkert útúr leiknum. En lið Hauka er einfaldlega gríðarlega sterkt og það þarf allt að ganga upp til að leggja þá að velli.

Áki Egilsnes var markahæstur í okkar liði með 8 mörk og átti skínandi leik. Tarik Kasumovic kom næstur með 6, Allan Norðberg 5, Daníel Matthíasson og Andri Snær Stefánsson 3 mörk, Jón Heiðar Sigurðsson 2 mörk og Einar Birgir Stefánsson gerði 1 mark.

Nú er komið jólafrí í deildinni og er KA liðið með 10 stig eftir fyrstu 13 leikina. Fyrir tímabilið var ljóst að verkefnið yrði ansi erfitt að halda sæti sínu í deildinni en útlitið er nokkuð gott fyrir síðari helminginn og verður ansi gaman að fylgjast með gangi mála þegar deildin fer aftur af stað í febrúar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband