Þór/KA valtaði yfir Hamrana

Fótbolti
Þór/KA valtaði yfir Hamrana
Hulda Ósk gerði fernu í dag (mynd: Sævar Geir)

Það var heldur betur nágranna- eða vinaslagur í Boganum í dag er Þór/KA og Hamrarnir mættust í Kjarnafæðismóti kvenna. Bæði lið höfðu unnið góðan sigur í fyrstu umferð mótsins og var um áhugaverða viðureign að ræða.

Töluvert var um meiðsli og fjarveru hjá báðum liðum og voru því aðeins samtals þrír varamenn á skýrslu. Fyrirfram var vitað að verkefni dagsins yrði erfitt fyrir lið Hamranna og hvort að skortur á leikmönnum hafi skemmt fyrir skal ég ekki segja en það virtist sem liðið hefði ekki mikla trú á verkefninu og fór liðið varla fram yfir miðju í fyrri hálfleiknum.

Þetta nýtti lið Þórs/KA sér og gerði þrjú mörk áður en flautað var til hlés. María Catharina Ólafsdóttir Gros kom liðinu á bragðið á 8. mínútu en Hulda Ósk Jónsdóttir bætti við næstu tveimur.

Það var hinsvegar allt annað að sjá til liðs Hamranna í upphafi síðari hálfleiks og opnaðist leikurinn töluvert. Þær komu sér í nokkur skipti í ágætis stöðu og fylgdu því betur eftir þegar boltinn tapaðist við mark Þórs/KA með pressu í stað þess að bakka og leyfa Þór/KA að koma sér framar á völlinn.

Hulda Ósk kom Þór/KA aftur á blað er hún gerði sitt þriðja mark á 62. mínútu og í kjölfarið kom markaregn. Una Móeiður Hlynsdóttir skoraði á 69. mínútu áður en Hulda Ósk fullkomnaði fernu sína á 71. mínútu. Hamrarnir gerðu sjálfsmark á 75. mínútu áður og staðan orðin 7-0. Jakobína Hjörvarsdóttir gerði áttunda markið á 88. mínútu og María Catharina gerði sitt annað mark í leiknum í uppbótartíma og lokatölur því 9-0.

Það er klárt mál að hið unga lið Hamranna mun læra af leiknum enda var svart og hvítt að fylgjast með liðinu í dag. Þó ber að hrósa liðinu fyrir að allan leikinn reyndu stelpurnar að spila sig í gegnum sterkt lið Þórs/KA en ekki að bomba boltanum fram og vonast eftir því besta.

Þór/KA gerði hinsvegar afar vel í að keyra yfir Hamrana og fá eitthvað útúr verkefni dagsins. Liðið hefur nú unnið báða leiki sína í Kjarnafæðismótinu sannfærandi og á eftir tvo leiki áður en kemur að Lengjubikarnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband