Þór og ungmennalið KA skildu jöfn (myndaveislur)

Handbolti
Þór og ungmennalið KA skildu jöfn (myndaveislur)
Leikurinn var frábær skemmtun (mynd: EBF)

Það var alvöru bæjarslagur í Höllinni á laugardaginn þegar aðallið Þórs tók á móti ungmennaliði KA í Grill66 deild karla í handbolta. Fyrir leik voru KA strákarnir stigi ofar Þór og var mikil eftirvænting fyrir leiknum og mættu rúmlega 500 manns í stúkuna og stemningin eftir því.

Tvo lykilmenn vantaði í ungmennalið KA en strákarnir létu það ekki á sig fá og mættu öflugir til leiks gegn aðalliði nágranna sinna. Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik en strákarnir okkar voru iðulega með frumkvæðið og leiddu 14-15 í hálfleik.

Þórir Tryggvason og Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða báðir til myndaveislu frá herlegheitunum hér fyrir neðan og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framtakið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Sama var uppi á teningunum í þeim síðari, KA með frumkvæðið en forskotið aldrei meira en tvö mörk og spennan gífurleg. KA leiddi 27-28 þegar sjö mínútur lifðu leiks en þá kom slakur kafli og Þórsarar náðu 32-29 forystu og aðeins þrjár mínútur til leiksloka.

En karakterinn í okkar unga liði er gífurlegur og strákarnir héldu áfram að keyra á Þórsara og jöfnuðu metin með þremur mörkum í röð. Staðan var því 32-32 þegar lokamínútan gekk í garð, Þórsarar misstu boltann og KA fékk um hálfa mínútu til að sækja sigurmark. Lokasóknin endaði á aukakasti er leiktíminn var liðinn og fór skot okkar manna framhjá og jafntefli því niðurstaðan eftir æsispennandi leik.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Strákarnir okkar eru því áfram stigi á undan nágrönnum okkar í næstefstu deild handboltans en þetta var fyrsti leikur ungmennaliðs KA á Akureyri í vetur en þrátt fyrir það hafa þeir halað inn 6 stigum og eru í þriðja sæti deildarinnar eftir fyrstu fimm leiki vetrarins.

Kristján Gunnþórsson var markahæstur okkar manna í leiknum með 9 mörk, Jónsteinn Helgi Þórsson gerði 8 mörk, Haraldur Bolli Heimisson 7, Arnór Ísak Haddsson 3, Ísak Óli Eggertsson 3 og þá gerðu þeir Logi Gautason og Jens Bragi Bergþórsson sitt hvort markið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband