Tilnefningar til Böggubikarsins

Almennt
Tilnefningar til Böggubikarsins
Handhafar Böggubikarsins 2016

Tilnefningar til Böggubikarsins 2017

Blakdeild:

Þórarinn Örn Jónsson, spilaði með okkur á síðasta tímabili en flutti sig aftur á Neskaupsstað fyrir tímabilið í ár. 

Þórarinn er 17 ára gamall, mjög efnilegur blakari og var einn aðalmaður meistaraflokksins síðasta vetur þar sem hann spilar stöðu frelsingja.

Þórarinn mætir vel á æfingar, hann leggur sig fram og nær árangri. Hann er léttur í lundu og lífgar uppá æfingar og keppnisferðir með léttri og jákvæðri framkomu og saklausu gríni við félagana. Hann sýnir íþróttinni mikinn áhuga og setur markið hátt. Þórarinn var valinn í U-19 ára landslið Íslands í ár sem tók þátt í Evrópumótinu sem haldið var í Rúmeníu í upphafi árs

Arnrún Eik Guðmundsdóttir Arnrún Eik er 18 ára og hefur spilað blak allt frá því hún var 7 ára, eða í 11 ár. Hún hefur því verið í íþróttinni meira en hálfa ævina og er blakari inn að beini. Arnrún byrjaði 11 ára að spila með meistaraflokki KA og hefur bæði spilað með U17 og U19 landsliðunum. Hún hefur fjórum sinnum keppt á NEVZA með landsliðunum og einu sinni á æfingamóti á Ítalíu. Með liðunum hefur hún bæði unnið brons og silfur. Hún er mjög fær og fjölhæfur leikmaður en hún hefur spilað allar stöður íþróttarinnar sem er ekki sjálfgefið í blakinu. Þjálfarar eiga auðvelt með að henda henni í djúpu laugina og hún er fljót að laga sig að nýrri stöðu og getur því auðveldlega leyst samherja sína af. Arnrún hefur í gegnum tíðina sinnt íþróttinni vel og samviskusamlega. Hún er dugleg að mæta á æfingar og tekur þátt í öllum þeim keppnum sem hún hefur tök á. Hún er góður liðsfélagi sem auðvelt er að leita til og lítur á stelpurnar í liðinu sem blak-fjölskyldu sína. Liðsheild og jákvæðni er henni mikilvæg og hefur hún ávallt sýnt það í verki

Handknattleiksdeild:

 

Ólöf Marín Hlynsdóttir Ólöf Marín spilar lykilhlutverk í liði 3. flokks kvenna bæði í vörn og sókn. Auk þess að vera æfa og spila með meistaraflokki KA/Þórs. Stefán Guðnason þjálfari 3.flokks segir um Ólöfu að hún sé  samviskusöm með eindæmum, dugleg og leggur sig 100% fram í öllu sem hún gerir. Hún er í U-18 landsliði Íslands sem spilaði í lokakeppni EM í Makdóníu í sumar.Ólöf er hlédræg, en hefur vaxið mikið í því hlutverki að verða leiðtogi og taka ábyrgð.

Því er það mat okkar þjálfara hennar að hún eigi það fullkomlega skilið að vera tilnefnd til Böggubikarsins.

Jónatan Marteinn Jónsson

Jónatan Marteinn er 17 ára leikmaður í 3. flokk KA í handbolta. Hann hefur að auki verið lykilmaður í U-liði KA og náð nokkrum leikjum í meistaraflokk. Jónatan hefur verið valinn í yngri landslið Íslands.

 Jónatan er örvhent skytta og hornamaður. Hann er afar flinkur spilari sem á framtíðina fyrir sér. Andri Snær þjálfari Jónatans lýsir honum sem vinnuþjark sem er duglegur að æfa aukalega og sýnir frammúrskarandi metnað. Hann er baneitraður þegar hann er í stuði og skoraði til að mynda 19 mörk í leik með KA-U í haust. Jónatan er með mikið KA hjarta og er ávallt til í að leggja sitt af mörkum fyrir félagið. Því miður varð kappinn fyrir því óláni að slíta krossband og rífa liðþófa í hné í byrjun október. Ljóst er að hann verður frá keppni næsta árið. Það lýsir Jónatan vel að hann er þegar byrjaður að stunda endurhæfingu af krafti og mun klárlega koma sterkur til baka eftir meiðslin og halda áfram að bæta sig sem leikmaður hjá KA.

Júdódeild:

Berenika Bernat

Berenika hefur æft júdó af mikilli alúð síðan hún var ung að aldri. Hún hefur seinustu árin dafnað og þroskast mikið í júdóusamfélaginu, verið valin í landslið og keppt á erlendri grundu fyrir Íslands hönd með góðum árangri. Fyrir utan að vera mjög góð í sinni íþrótt þá er Berenika einnig mjög dugleg að gefa af sér á æfingum og hjálpar öðrum sem eru styttra komin til að aðlagast æfingaumhverfinu. Hún er jákvæður og hvetjandi æfingafélagi, er ávallt félagi sínu til sóma á mótum og er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur. Í ágúst fór hún til Póllands til að æfa og verða betri í sinni íþrótt, enda stefnir hún langt.

Alexander Heiðarsson

Alexander hefur æft Júdó frá fimm ára aldri. Hann hefur verið efnilegasti júdómaður Íslands síðustu árin. Erfitt er að finna annan einstakling með sömu hæfileika og hann en þar fyrir utan er hann ótrúlega duglegur að æfa og hugsa um sína íþrótt út frá öllum sjónarhornum. Hann hefur verið valin í landslið í mörg ár og nánast undantekningalaust hefur hann unnið til verðlauna á mótum erlendis. Fyrir utan að vera magnaður íþrótta- og keppnismaður þá er hann Alexander mjög hógvær og jarðbundinn strákur sem er alltaf tilbúinn til þess að aðstoða og kenna öðrum. Hann er mjög góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur Júdódeildar KA, hvort sem er eldri eða yngri.  

Knattspyrnudeild:

Daníel Hafsteinsson

Daníel Hafsteinsson hóf árið með miklum krafti þar sem hann var einn besti leikmaður KA í Kjarnafæðismótinu og Lengjubikarnum. Í sumar spilaði Daníel átta leiki í Pepsideildinni og einn í bikarkeppni KSÍ. Daníel var einnig lykilmaður í 2. flokk sem vann sér sæti í deild þeirra bestu að ári en liðið lék í B-deild í sumar. Daníel spilaði fimm leiki með U19 ára liði Íslands á árinu og skoraði eitt mark gegn Englandi í undankeppni EM.

Karen Sigurgeirsdóttir

Karen María Sigurgeirsdóttir vann sig inn í meistaraflokks hóp Þór/KA í vetur. Hún átti frábært sumar en hún var lang markahæsti leikmaður A-deildar 2. flokks með 17 mörk í 11 leikjum og B-deildar 3. flokks með 15 mörk í 10 leikjum. Hún skoraði einnig eitt mark í fimm leikjum í Pepsideildinni sem var sigurmark í Kaplakrika sem reyndist dýrmætt fyrir Þór/KA þegar upp var staðið. Karen María varð með liðum sínum Íslandsmeistari í meistaraflokk og 2. flokk og bikarmeistari í 2. flokk. Til að toppa flott sumar spilaði hún þrjá leiki með U17 ára liði Íslands í undankeppni EM sem komst áfram í næstu umferð.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband