Tveir heimasigrar um helgina (myndaveislur)

Blak
Tveir heimasigrar um helgina (myndaveislur)
Stelpurnar eru með fullt hús (mynd: Þórir Tryggva)

Bæði karla- og kvennalið KA í blaki áttu heimaleik um helgina og unnust báðir leikirnir. Stelpurnar tóku á móti Þrótti Reykjavík á laugardeginum en strákarnir tóku á móti nýliðunum í Vestra á sunnudeginum. Það má með sanni segja að bæði lið hafi þurft að hafa töluvert fyrir hlutunum.

Þróttur byrjaði leikinn í gær betur og komst snemma í 1-5 og 3-8 áður en loksins kviknaði líf í KA liðinu. Það var þó ekki fyrr en í stöðunni 15-15 að stelpunum tókst loksins að jafna metin og í kjölfarið komst KA liðið í 18-15.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá kvennaleiknum

En Þróttaraliðið gerði næstu sjö stig og voru skyndilega komnar í lykilstöðu að klára fyrstu hrinu leiksins. Mateo gerði þá nokkrar breytingar á liðinu og í kjölfarið komst KA í 24-23 og tókst svo að klára hrinuna í 26-24.

Önnur hrina var gríðarlega spennandi og skiptust liðin á að leiða og var munurinn nær ávallt 1-2 stig. Stelpurnar náðu hinsvegar frábærum kafla í stöðunni 15-15 og komust í 22-17. Eftir það var í raun ekki spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og KA vann að lokum 25-19.

Staðan því orðin 2-0 og gestirnir með bakið uppvið vegg þrátt fyrir góða frammistöðu. Þróttarar hófu þriðju hrinuna af miklum krafti og greinilegt að liðið ætlaði að selja sig dýrt. En KA liðið var komið í góðan gír og stelpurnar sneru leiknum úr 4-7 yfir í 11-8 og síðar í 17-12. Þarna héldu margir að gestirnir myndu gefa eftir en svo var alls ekki og staðan var orðin jöfn í 19-19.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá kvennaleiknum

Endaspretturinn var hinsvegar okkar og stelpurnar unnu að lokum 25-21 og leikinn þar með 3-0. KA þurfti að hafa töluvert fyrir leiknum en gríðarlega jákvætt að stelpurnar hafi klárað leikinn í þremur hrinum og liðið er því áfram á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, nú eftir fjóra leiki.

Það er hinsvegar aðeins önnur staða hjá karlaliði KA en fyrir leikinn voru strákarnir með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leiki vetrarins. Nýliðar Vestra voru hinsvegar enn án stiga og því margir sem reiknuðu með frekar sannfærandi sigri KA í leiknum en svo varð alls ekki.

KA liðið reyndar hóf leikinn gríðarlega vel og komst snemma í 7-1 en Vestfirðingar gáfust ekki upp og þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þeim tókst loks að jafna í stöðunni 18-18 og voru svo komnir yfir í 19-20. Lítið gekk hjá KA liðinu og á endanum tapaðist fyrsta hrinan 21-25 en KA gerði alltof mörg mistök í hrinunni.

Aftur byrjaði KA liðið betur og komst liðið í 9-4 og síðar 13-7. Í þetta skiptið tókst strákunum hinsvegar að halda haus og spiluðu mun agaðri leik. Að lokum vannst 25-19 sigur í hrinunni og staðan því orðin jöfn 1-1.

Eftir mikla baráttu í upphafi þriðju hrinu tókst KA liðinu að ná góðu taki á hrinunni og leiddu 18-14 og 20-17 fyrir lokasprettinn. Leikmenn Vestra reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en KA liðið hélt áfram að leika agað blak og vann á endanum 25-22.

Þarna hélt maður að KA liðið væri komið með leikinn enda voru strákarnir búnir að fækka mistökunum sínum gríðarlega og spilið orðið betra. En byrjunin á fjórðu hrinu var alls ekki nægilega góð og gerðu strákarnir til að mynda fleiri mistök í upphafi þeirrar hrinu en í allri þriðju hrinu.

Gestirnir gengu því á lagið og jöfnuðu metin í 2-2 með því að sigra fjórðu hrinuna 18-25 og knúðu þar með fram oddahrinu. Vestrismenn voru því komnir með sitt fyrsta stig í vetur og enn áttu liðin eftir að berjast um það þriðja.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá karlaleiknum

Jafnt var á öllum tölum í upphafi oddahrinunnar en þegar leið á hana sýndu strákarnir styrk sinn og þeir sigu framúr. Að lokum vannst 15-8 sigur og uppskar liðið því tvö stig úr leiknum. Strákarnir eru því með 5 stig eftir fyrstu fjóra leiki vetrarins sem verður að teljast rýr uppskera miðað við það að strákarnir eru handhafar allra titlanna.

Það virtist vera sem að þessi langa pásu sem hefur verið á Mizunodeildunum hafi tekið aðeins taktinn úr liðunum okkar og þá sérstaklega karlamegin. Vonandi verða liðin fljót að koma sér aftur í gírinn enda má búast við gríðarlega erfiðri baráttu um Deildarmeistaratitlana í vetur.

Að lokum mættust svo KA-B og Vestri í 1. deild kvenna. Það má með sanni segja að stelpurnar hafi verið gríðarlega óheppnar að ná ekki að vinna hrinu í leiknum en það vantaði aðeins upp á stöðugleikann og gestirnir fóru á endanum með 0-3 sigur af hólmi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband