Valskonur skelltu KA/Þór að Hlíðarenda

Handbolti
Valskonur skelltu KA/Þór að Hlíðarenda
Hulda Bryndís gerði 6 mörk (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór sótti topplið Vals heim í 8. umferð Olís deildar kvenna í kvöld. Stelpurnar lögðu Íslandsmeistara Fram í síðustu umferð auk þess að komast áfram í Coca-Cola bikarnum þannig að þær mættu fullar sjálfstrausts í leik kvöldsins.

Valsliðið byrjaði betur og komst í 3-0 í upphafi leiks áður en Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoraði tvö góð mörk og breytti stöðunni í 3-2. Jafnræði var með liðunum næstu mínútur og munaði mikið um að Olgica Andrijasevic var að verja vel í marki okkar liðs.

En sóknarleikurinn var ekki nægilega góður og þegar leið á fyrri hálfleikinn fóru heimakonur að auka við forskotið. Þegar flautað var til hlés var staðan orðin 15-7 og mesta spennan því miður farin úr leiknum. Valsliðið mætti mjög klárt í leikinn og hafði greinilega farið vel yfir sigur okkar liðs á Fram.

Síðari hálfleikurinn var svo í raun algjört formsatriði hjá heimakonum, munurinn fór upp í fimmtán mörk og aðalmarkmiðið í raun að reyna að bjarga andlitinu sem best úr því sem komið var. Lokatölur voru 31-16 og afar sannfærandi sigur Vals staðreynd.

Það var vitað fyrir tímabilið að það myndu koma leikir þar sem liðið yrði undir í baráttunni. Enda má ekki gleyma því þrátt fyrir góða byrjun að stelpurnar eru nýliðar í deild þeirra bestu og erfitt að halda dampi í öllum leikjum, hvað þá gegn bestu liðunum.

Mörk KA/Þórs: Hulda Bryndís Tryggvadóttir 6 mörk, Ásdís Guðmundsdóttir 3 (1 úr víti), Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3 (1 úr víti), Martha Hermannsdóttir 1, Þóra Björk Stefánsdóttir 1, Katrín Vilhjálmsdóttir 1 og Ásdís Sigurðardóttir 1 mark.

Í markinu varði Olgica Andrijasevic 9 skot og Selma Sigurðardóttir Malmquist varði 2 skot.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband