Jens Bragi framlengir um tvö ár

Handbolti
Jens Bragi framlengir um tvö ár
Haddur og Jens handsala samninginn góða

Jens Bragi Bergþórsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn út tímabilið 2025-2026. Jens sem verður 18 ára í sumar er orðinn algjör lykilmaður í meistaraflokksliði KA og afar jákvætt að hann taki áfram slaginn með uppeldisliðinu.

Jens hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á línunni en hann lék 26 leiki á nýliðnum vetri þar sem hann gerði 42 mörk og var skotnýting hans 74%. Jens er hluti af hinum ógnarsterka 2006 árgang í félaginu en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.

Áður höfðu þeir Dagur Árni Heimisson og Magnús Dagur Jónatansson skrifað undir nýja samninga og ljóst að við höldum áfram að spila á okkar efnilegu og öflugu ungu leikmönnum. Frammistaða Jens á nýliðinni leiktíð sýnir skýrt að hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér og verður afar gaman að fylgjast með honum áfram stíga skref fram á við í meistaraflokksliði KA í efstu deild á næstu leiktíð.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is