Tilnefningar til íþróttakarls KA 2023

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Lyftingar

Sex karlar eru tilnefndir til íþróttakarls KA fyrir árið 2023. Þetta er í fjórðja skiptið sem verðlaunin eru afhent hvoru kyni og hefur ríkt mikil ánægja með þá breytingu. Deildir félagsins tilnefndu allar aðila úr sínum röðum og verður valið kunngjört á 96 ára afmæli félagsins.

Alex Cambray hefur verið duglegur að keppa á árinu bæði fyrir hönd félagsins og landsliðsins. Auk þess sinnir hann stöðu formanns deildarinnar og er yfirþjálfari í kraftlyftinga hjá deildinni. Alex sótti sér þjálfaramenntun ÍSÍ á árinu og hefur verið drifkraftur í uppbyggingarstarfi deildarinnar. Í mars keppti Alex á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði þar sem hann átti stórkostlegt mót, fékk allar sínar lyftur gildar ásamt því að landa Íslandsmeistaratitli í sínum þyngdarflokki auk þess að vera stigahæsti lyftari mótsins óháð þyngdarflokki.

Í maí keppti Alex á Evrópumeistaramóti sem haldið var í Danmörku, þar endaði hann í 5. sæti þrátt fyrir veikindi í aðdraganda mótsins. Alex lyfti 795 kg á mótinu og rétt missti af verðlaunapalli í bæði hnébeygju og samanlagðri þyngd. Núna í nóvember keppti Alex á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem haldið var í Litháen. Endaði hann í 10.sæti með 810 kg í samanlagðri þyngd. Alex lyfti 325 kg í hnébeygju, 202,5 kg í bekkpressu og 282,5 kg í réttstöðulyftu. Alex lyfti einnig 340 kg í hnébeygju en dómarar dæmdu lyftuna því miður ógilda, en lyftan hefði skilað Alex upp í 7.sæti á mótinu. Alex endar árið sem 13 öflugasti lyftari ársins á heimslista alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF).

Birkir Bergsveinsson náði frábærum árangri í sínum þyngdaflokki -66 kg. á þessu ári. Birkir vann til silfurverðlauna á Íslandsmóti 20 ára og yngri og lenti í þriðjasæti á íslandsmóti fullorðinna. Á hinu alþjóðlegamóti Reykjavík International games 2023 náði hann þriðja sæti sem frábær árangur fyrir eins ungan keppanda og Birkir er. Birkir Bergsveinsson er góður æfingafélagi og hefur stundað íþrótt sína af kostgæfni á árinu. Hann er einnig áhugasamur og öflugur aðstoðarþjálfari í yngri flokkum.

Dagur Gautason átti frábært tímabil fyrir KA veturinn 2022/23. Hann skoraði að meðaltali 5,4 mörk í leik fyrir KA og vakti það mikla athygli að hann var keyptur í norsku úrvalsdeildina eftir tímabilið. Nú leikur Dagur með OIF Arendal, þar sem hann hefur byrjað frábærlega og m.a. verið í liði mánaðarins fyrstu þrjá mánuðina af keppnistímabilinu. Dagur var næst markahæstur KA manna síðastliðið tímabil, í liði sem endaði í 10. sæti deildarinnar. Dagur fór mikinn oft og tíðum og gat og getur með leikgleði sinni og baráttu blásið lífi í tapaða leiki.

Stjarna Dags hefur skinið skært á haustmánuðum ársins 2023 en hann er búinn að skora 64 mörk í 13 leikjum fyrir Arendal sem situr á toppi norsku úrvalsdeildarinnar, nokkuð óvænt. Dagur er með 77% skotnýtingu í sínum leikjum og hefur verið valinn í lið mánaðarins í september, október og nóvember. Dagur er gríðarlega mikill félagsmaður og þjálfaði yngriflokka hjá KA/Þór áður en hann hélt í atvinnumennskuna og var gríðarlega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur KA en Dagur hefur alltaf lagt mikið á sig í sínum æfingum og keppni og uppsker því eins og hann sáir.

Einar Rafn Eiðsson er besti leikmaður KA í handbolta. Einar varð markakóngur Olís-deildar karla í fyrra með 164 mörk og skoraði að meðaltali 7,4 mörk í leik. Þá gaf hann einnig 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik og skapaði 5,4 færi fyrir liðsfélaga sína. Einar varð markahæstur í liði KA, sem og deildinni allri tímabilið 2022-2023 en lið KA varð í 10. sæti.

Einar varð markakóngur deildarinnar og var gríðarlega mikilvægur fyrir KA á tímabilinu sem þó var erfitt. Einar er búinn að skora 6,8 mörk að meðaltali í leik á yfirstandandi tímabili og er langmarkahæstur í liðinu. KA er sem stendur í 7. sæti Einar Rafn gefur einnig af sér utan vallar og hefur meðal annars komið að þjálfun yngri flokka hjá KA.

Gísli Marteinn Baldvinsson sem spilar miðju var einn mikilvægasti leikmaður KA í liðinu sem vann Íslandsmeistaratitilinn í vor og þrátt fyrir ungan aldur sýndi Gísli Marteinn ótrúlega hæfileika og leiddi úrslitakeppnina í stigum úr hávörn. Sýnir það ekki aðeins meðfædda hæfileika heldur djúpan skilning á leiknum. Gísli var valinn besti blokkarinn og valinn miðja í úrvalslið ársins af Blaksambandi Íslands fyrir síðasta tímabil.

Hann vann einnig tiltilinn Meistari meistaranna nú í haust með liðinu. Það sem af er af þessu tímabili er enginn vafi á að Gísli gefur ekkert eftir og er enn lykilleikmaður liðsins þetta tímabil, hann trónir á toppnum yfir flest stig fengin úr hávörn og eins er hann með bestu nýtingu úr sókninni það sem af tímabilsins.

Hallgrímur Mar átti gott tímabil með KA í Bestu deildinni. Hann var stoðsendingarhæsti leikmaður Bestu deildarinnar með 13 stoðsendingar sem var jöfnun á stoðsendingameti efstu deildar. Í deild, bikar og Evrópukeppni skoraði hann 10 mörk. Hallgrímur Mar var lykilmaður í KA liðinu sem fór alla leið í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar og í bikarúrslit.

Hallgrímur Mar var valinn leikmaður tímabilsins á lokahófi KA enda eitt af fjölmörgum góðum tímabilum hjá honum í gulu treyjunni. Erfitt er að finna félagsmet í meistaraflokki KA í knattspyrnu sem Hallgrímur Mar á ekki en hann er leikjahæsti, stoðsendingahæsti og markahæsti leikmaður KA frá upphafi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is