86 ára afmælið, haldið 12. janúar 2014

Þann 12. janúar 2014 var boðið til afmælisfagnaðar. Hér á eftir fara ræður og kynningar ásamt útnefningu íþróttamanna félagsins árið 2013.

Hrefna G. Torfadóttir, formaður setti hátíðina með eftirfarandi orðum:
Hrefna TorfadóttirKomið þið sæl og gleðilegt ár. Verið hjartanlega velkomin í 86 ára afmæli félagsins okkar.
Mér finnst það skemmtilegur siður að halda afmælisveislu á hverju ári í KA heimilinu, hvort sem það er á stórafmælum eða þess á milli. Það gleður mann að sjá hversu margir öllum aldri, ungir sem eldri, koma til að halda upp á afmæli KA. Í fyrra héldum við stórhátíð, mjög vel heppnaða, og núna höldum við hefðbundið afmæli með stuttri dagskrá sem lýkur með því að kunngert verður hver hlýtur titilinn Íþróttamaður KA 2013.
Síðast en ekki síst er svo hlaðborð á eftir sem ýmsir félagsmenn hafa lagt til veitingar á. Við eigum svo marga og frábæra sjálfboðaliða sem eru boðnir og búnir til að gera hvað sem er og til dæmis telja ekki eftir sér að leggja til kökur, brauð eða annað góðgæti. Ég vil þakka þeim alveg sérstaklega fyrir og hlakka til að smakka það sem í boði er og miðaða við það sem ég sá borið inn í hús hér áðan þá eigum við von á glæsilegu hlaðborði að vanda.

Það hefur verið til siðs á undanförnum árum að minnast þeirra félaga okkar sem fallið hafa frá á liðnu ári, eða frá síðasta afmæli.
Knútur Otterstedt fyrrverandi formaður KA lést þann 12. febrúar á síðasta ári og Einar Helgason lést þann 15. desember síðastliðinn. Við minnumst þeirra með þakklæti og virðingu.
Við eigum og höfum átt svo mikið af góðu fólki sem hefur lagt hönd á plóginn bæði félagslega og íþróttalega til að byggja upp þetta stóra félag okkar.
Ég vil biðja ykkur að rísa úr sætum í virðingarskyni við minningu Knúts og Einars.
Takk fyrir.

Við eigum margt efnilegt íþróttafólk hjá KA og það er mér mikil ánægja að lesa upp nöfn þeirra iðkenda okkar sem valdir hafa verið í landsliðshópa í hinum ýmsu greinum. Ég vil biðja þau að koma hér upp svo afmælisgestir geti séð þau og Þórir Tryggva mun svo taka mynd af hópnum á eftir.
Þeir iðkendur KA sem valdir voru í landsliðshópa 2013 voru:

Frá blakdeild:
Í U-17 landsliði:
   Benedikt Rúnar Valtýsson
   Gunnar Pálmi Hannesson
   Sigurjón Karl Viðarsson
   Sævar Karl Randversson
   Valþór Ingi Karlsson
   Vigfús J. Hjaltalín
   Ævarr Freyr Birgisson
   Sóley Ásta Sigvaldadóttir

Í U-19 landsliði:
   Benedikt Rúnar Valtýsson
   Gunnar Pálmi Hannesson
   Sigurjón Karl Viðarsson
   Sævar Karl Randversson
   Valþór Ingi Karlsson
   Ævarr Freyr Birgisson
   Ásta Lilja Harðardóttir

Í A-landsliði í blaki:
   Filip Szewczyk

Frá handknattleiksdeild:
Í U-18 landsliði
   Birta Fönn Sveinsdóttir

Frá Knattspyrnudeild:
Í  U-19 landsliði
   Fannar Hafsteinsson
   Lára Einarsdóttir
   Ævar Ingi Jóhannesson

Í U-18 landsliði
   Gauti Gautason
   Ívar Sigurbjörnsson

Í U-17 landsliði
   Bjarki Þór Viðarsson
   Ólafur Hrafn Kjartansson    

Í U-15 landsliði   
   Áki Sölvason

Nokkrir landsliðsmanna KA

Auk þessa frábæra íþróttafólks okkar voru fjölmargir aðrir ungir íþróttamenn frá KA boðaðir á úrtaksæfingar landsliða og einnig landshlutaæfingar hér á Akureyri.
Við skulum gefa þeim öllum gott klapp.

Kynnir afmælishátíðarinnar, Siguróli Magni Sigurðsson, yngri tók nú við stjórn samkomunnar með eftirfarandi orðum:
Kæru KA-menn og konur. Ég undirstrika það sem Hrefna sagði hér áðan og býð ykkur hjartanlega velkominn á þennan 86 ára afmælisfögnuð KA.
Siguróli Magni SigurðssonÞað er mér mikill heiður að fá að vera kynnir dagsins og hver veit, nema einn daginn, standi ég í þeim sporum sem Hrefna og annað eðalfólk hefur staðið, sem formaður besta íþróttafélags Íslands.
Ég hef undanfarin ár búið á sunnanverðu landinu, þar sem ég stundaði nám,  en fluttist aftur til Akureyrar í sumar. Á þeim þremur árum sem ég bjó á höfuðborgarsvæðinu var ég viðloðinn þónokkur íþróttafélög og íþróttahús og get ég fullyrt að hvergi er jafn hlýlegt og gott að koma eins og í KA heimilið.

Það er mín reynsla að þegar maður býr í burtu frá uppeldisstað sínum, Akureyri í mínu tilfelli, fer hugurinn oft að reika og söknuður kemur upp í hugann. Ég saknaði oft fjölskyldu minnar og vina, sem og veðurfars og hentugleika Akureyrar. Svo saknaði ég KA-heimilisins og félagsstarfsins í heild sinni. Ég var nefnilega það heppinn að fæðast inn í stóra fjölskyldu, foreldrar, tvö sett af ömmum og öfum, þrjú systkini og KA.

Þegar ég bjó fyrir sunnan var ég duglegur að koma norður þegar tími gafst og gat því fullnægt þörfum mínum að labbað á milli staða, heilsað fólki í kjörbúðinni og verið í faðmi fjölskyldu og vina.  Hinsvegar fannst mér ég missa aðeins samband mitt við KA. Ég þekkti ekki starfsfólk hússins, ég vissi ekkert hver þessi Sævar Pétursson var, nýr dúkur var settur á gólfið hérna frammi og þar fram eftir götunum. Þetta fannst mér erfitt en sem dæmi má nefna að aðeins 19 ára gamall sat ég í stjórn knattspyrnudeildar og hafði þjálfað handbolta hjá KA frá 15 ára aldri.

Það var því mitt fyrsta verk eftir að ég og konan mín tókum þá ákvörðun að flytja norður að leyfa KA að njóta krafta minna. Ég bauðst til þess að vera handknattleiksdeild innan handar en það vatt síðan upp á sig og er ég nú formaður hennar og þess heiðurs aðnjótandi að sitja í aðalstjórn. Frá því segi ég stoltur á hverjum degi.

Í dag er ég hinsvegar enginn ræðumaður heldur kynnir og vil kynna næsta dagskrárlið til leiks en þar verða annálar ársins 2013 lesnir af Sigríði Jóhannsdóttur eða eins og Sigfús Karlsson hefði kallað árið 1997 fyrir troðfullu KA-húsi: Númer 8: Sigríður Jóhannsdóttir.

Sigríður Jóhannsdóttir las annála deilda í fjarveru Sigurðar Harðarsonar sem tekið hafði þá saman, eða eins og hún sagði og hafði verið uppálagt að segja: „Hér kemur Sigga að lesa fyrir Sigga“.
Sigríður JóhannsdóttirKæru félagar og gestir.
Það hefur skapast sú hefð á þessari afmælishátíð, að flytja annála hinna ýmsu deilda KA. Þið verðið að hafa í huga að eðli málsins samkvæmt er ekki mikið talað um sameiginleg verkefni eins og grasvallarframkvæmdina og allt það stóra verkefni, né heldur framkvæmdir hér innanhúss í íþróttahúsi, sem voru miklar.  Það bíður skýrslu stjórnar, sem flutt verður á aðalfundi í vor og þið verðið  vonandi öll mætt þar til að hlýða á.
Við tökum annálana í stafrófsröð og hefjum lesturinn á blakdeild:

Blakdeild:
Í stjórn blakdeildar sitja 5 manns og aðrir 5 í yngriflokkaráði. Samstarf þarna á milli er mjög mikið ekki síst þar sem að liðin okkar í meistaraflokki eru meira og minna byggð á einstaklingum úr yngri flokkunum. Okkur til mikillar ánægju er krakkablak komið á fleiri stöðum hér á norðurlandi þannig að við eigum möguleika á æfingaleikjum og öðru samstarfi, t.d. er stefnt að æfingabúðum fyrir krakka í 4. og 5. flokki á Siglufirði núna í janúar. Þangað koma vonandi iðkendur frá Húsavík, Stóru-Tjörnum, Grenivík, Akureyri og Siglufirði. Einn þjálfari frá okkur keyrir til Grenivíkur og er með krakkablaksæfingar þar. Við viljum gjarna fjölga yngri blakiðkendum og erum núna með stærri hóp í 5. flokki en hefur verið s.l. ár. Í haust var haldið námskeið fyrir krakkablaksþjálfara hér í KA-heimilinu fyrir þjálfara á norðurlandi.

Blakdeild KA hélt tvö mót á árinu 2013, seinnihluta Íslandsmóts BLÍ fyrir 2. og 4.fl í apríl og Haustmót BLÍ fyrir sömu flokka í nóvember. Auk þess heldur öldungadeildin alltaf mót í nóvember.

Meistaraflokkur karla endaði í 2. sæti um Íslandsmeistaratitil eftir harða baráttu í 5 úrslitaleikjum. 2. og 3. fl karla urðu bikarmeistarar í sínum flokkum en sömu strákarnir spila í báðum flokkum. 2.fl kvenna endaði í 2. sæti í bikarkeppni BLÍ í sínum flokki og 2. og 3.fl karla og 2.fl kvenna enduðu öll í 2. sæti á Íslandsmótinu í sínum flokkum.

KA átti sjö drengi og eina stúlku í U17 landsliðinu og sex drengi og eina stúlku í U19 landsliðinu.   Sömu drengirnir voru í báðum liðum. Þessi lið kepptu í Danmörku og Englandi á haustdögum.  Þá var Filip Szewczyk, leikmaður meistaraflokks valinn í A-landslið karla.
Á uppskeruhátíð BLÍ  í apríl var leikmaður KA, Piotr Kempisty valinn besti leikmaður í Mikasadeild karla og Ævarr Freyr Birgisson efnilegastur. Einnig var Filip Szewczyk valinn besti uppspilarinn í karladeildinni.

Núna í lok janúar sér KA um annan hluta Bikarkeppni BLÍ og síðan er rúsínan í pylsuendanum Öldungamótið um mánaðamótin apríl-maí en þar er búist við 120 til 150 liðum, karla og kvenna með tilheyrandi mannfjölda í bæinn. Þarna er um fullorðna einstaklinga að ræða, suma með alla fjölskylduna, og sem skilja mikið eftir sig hjá hótelum og gistináttaseljendum, veitingastöðum og í verslunum.

Handknattleikur:
Starf handknattleiksdeildar KA var afar blómlegt á árinu 2013 en þessi  annáll spannar tvö hálf keppnistímabil  handboltans, þ.e. seinni helming af tímabilinu 2012-2013 og fyrri helming af tímabilinu 2013-2014.

Handknattleiksdeild KA skiptist upp í kvennaráð, sem rekur meistaraflokk KA/Þór en hann tekur þátt í Olís-deild kvenna á nýjan leik eftir eins árs fjarveru, og unglingaráð sem sér um rekstur yngri flokka. Þjálfari meistaraflokks KA/Þórs er Einvarður Jóhannsson og sér hann einnig um þjálfun yngstu stúlknanna í 8. flokki.
Einvarði til aðstoðar, ásamt því að þjálfa 3. flokk kvenna, er Gunnar Ernir Birgisson.

Meistaraflokkurinn hefur staðið sig vonum framar í vetur og er liðið búið að krækja í fleiri stig en nokkur þorði að vona fyrir tímabilið.  Liðið er skipað skemmtilegri blöndu af yngri og eldri leikmönnum og leika margar ungar stúlkur þar stór hlutverk og öðlast því mikilvæga reynslu. Vert er að nefna að Birta Fönn Sveinsdóttir hefur leikið afar vel og hefur verið valin í unglingalandslið HSÍ og þá  hefur Sunna Pétursdóttir, 15 ára gömul stúlka, varið mark liðsins af mikilli festu. Liðið hefur þó orðið fyrir töluverðum áföllum það sem af er vetri en ristarbrot, ökklabrot og erfið meiðsl á öxl hafa sett strik í reikninginn hjá þremur leikmönnum liðsins, og er hópurinn því nokkuð þunnskipaður.

Síðari hluti tímabilsins er nú að fara af stað og stefna liðsins er enn að ná í 8. sæti deildarinnar, sem gefur keppnisrétt í úrslitakeppninni sjálfri. Gríðarlega gaman hefur verið að sjá áhorfendafjöldann á leikjum liðsins en þeir hafa aldrei farið undir 300 talsins, sem telst afar gott og skákar flestum öðrum liðum landsins.

Síðan er það unglingaráðið, sem rekur alla yngri flokka KA og KA/Þórs  en kvennaflokkarnir keppa undir sameiginlegum merkjum félaganna. Um 280 iðkendur eru á skrá handknattleiksdeildar og oft mikið fjör þegar tekist er á á gulum og bláum fjölum KA-heimilisins. Handknattleiksdeildin er gríðarlega stolt af þjálfarateyminu veturinn 2013-2014 en sjaldan hafa verið jafn reynslumiklir þjálfarar hjá félaginu. Má nefna í því samhengi að þjálfarar 8. flokks karla eru engir aðrir en þjálfarar Akureyri handboltafélags þeir Bjarni Fritzson og Heimir Árnason. Þá eru gullaldarþjálfararnir Jóhannes Bjarnason,  Sævar Árnason og Jóhann G. Jóhannsson farnir að krukka í yngriflokkastarfinu á nýjan leik en þessir þjálfarar hafa skilað gullpeningum í tugatali ásamt fjöldanum öllum af landsliðsmönnum í gegnum tíðina.

Uppskera tímabilsins 2012-2013, sem kláraðist á vordögum 2013, var margt um ágæt en hvorki Íslands- né bikarmeistaratitill leit þó dagsins ljós í yngri flokkunum.
Nokkuð var þó um deildarmeistaratitla en 4. fl. kvenna yngra ár, 3. flokkur karla og meistaraflokkur kvenna urðu deildarmeistarar í sínum deildum. Meistaraflokkur kvenna tók þátt í utandeild kvenna en tapaði liðið naumlega úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil utandeildarinnar. Þá voru einnig nokkrir iðkendur KA og KA/Þór valdir í yngri landslið Íslands.

Í haust gaf handknattleiksdeild út námskrá KA í handbolta sem unnin var af Sævari Árnasyni og er mikill hornsteinn í starfi deildarinnar. Námskráin er aðgengileg á vef félagsins og geta foreldrar, ásamt iðkendum, kíkt í hana og séð markmið hkd. KA, starfslýsingar þjálfara, stefnu deildarinnar í forvarnarmálum, hugmyndafræði hvers flokks fyrir sig ásamt mörgu öðru.

Knattspyrna:
Árið 2013 var að mörgu leyti mjög gott ár fyrir knattspyrnuna í KA. Strax í upphafi sl. ár var gefinn tónninn þegar fyrsta skóflustunga var tekinn að nýjum gervigrasvelli en það voru þeir heiðursmenn  Siguróli M Sigurðsson og Þormóður Einarsson sem það gerðu.  Rétt rúmum sex mánuðum seinna var  þessi glæsilegi völlur klár og má segja að honum hafi verið vel tekið enda tókst vel til við framkvæmdina. Völlurinn iðaði af lífi frá því eldsnemma á morgnana og fram yfir miðnætti flesta daga vikunnar.
Í haust sannaði völlurinn svo enn betur hvílíkt mannvirki hann er og það er ljóst að hann mun skila okkur betra knattspyrnufólki þegar fram í sækir. Það er ástæða til þess að þakka bæjaryfirvöldum samstarfið við byggingu vallarins.

M.fl. lék sl. sumar undir stjórn Bjarna Jóhannssonar og Tufa. Miklar væntingar voru  í upphafi móts til þess að nú værum við loks með lið sem gæti gert alvarlega atlögu að sæti í úrvalsdeild. Meiðsli leikmanna settu strik í reikninginn. Gunnar Valur sleit hásin, Mads Rosenberg meiddist í 4. umferð og kom ekkert við sögu eftir það og einnig var Hallgrímur frá á slæmum tíma ásamt því að leikmönnum gekk misjafnlega að finna þennan fræga takt sem svo gott er að hafa meðferðis. Niðurstaðan, sjötta sætið var hreinlega ekki það sem búist var við, en okkar að taka.   

Ljóst  er að breytingar verða á leikmannahópnum fyrir vorið en það er trú okkar að þjálfarateymið og hópurinn muni gera vel á komandi keppnistímabili. KA á alltaf að stefna hátt.

Ánægjulegt er að segja frá því að aldrei í sögu félagsins höfum við átt fleiri leikmenn í yngri landsliðum Íslands en nú, bæði í karla og kvennaliðum. Þetta er einkar ánægjuleg staðreynd og hvetur okkur áfram til góðra verka. Arsenalskóli yngriflokkaráðs var haldinn á félagssvæðinu að venju s.l. sumar og tókst sem fyrr afar vel.

Mikil gróska er í starfi yngri flokkaráðs og enn eitt árið er fjölgun iðkenda staðreynd. KA tefldi fram í fyrsta skipti tveimur liðum í 2. flokki karla sl. sumar og erum við afar sátt með það.
Hápunktur starfs knattspyrnudeildar á ári hverju er svo N1 mótið en þá sýna KA félagar hlýhug sinn til félagsins þegar þeir skila ómældu starfi fyrir KA svo mótið geti farið fram og haldið þeim stalli sem það er á sbr. orð fréttamanns Stöðvar 2 „mótið er móðir allra móta“  Án þessa KA fólks væri ekki neitt mót og stendur knattspyrnudeild og í raun allir sem að ferðaþjónustu koma í bænum í mikilli þakkarskuld við þennan óeigingjarna hóp.  Bærinn fyllist af brosandi fjölskyldufólki, sem kemur hingað fyrstu helgina í júlí og þetta fólk skilur mikið eftir sig í verslunum, veitinga- og gististöðum og er það vel. Sem betur fer þarf ekki aukavaktir hjá lögreglu, fíkniefnadeild eða viðbúnað hjá heilbrigðisstofnunum því hér eru brosandi gestir sem ekki nokkur þarf að hafa áhyggjur af. Gaman er einnig að segja frá því að KA greiðir til Akureyrarbæjar verulegar upphæðir fyrir að halda mótið í formi húsaleigu í skóla og fyrir notkun á sundlaug bæjarins.
Þessi helgi er okkur til sóma, vinsældir mótsins segja okkur ár eftir ár að við erum að gera mjög góða hluti. Við megum auðvitað ekki slaka neitt á og við munum ekki gera það.

Tennis- og badminton:
2013 var fyrsta heila starfsár tennis- og badmintondeildar KA. Við vorum með um 25 iðkendur á aldrinum 8-17 ára og eru æfingar í Höllinni á þriðjudögum og fimmtudögum.
Í haust bættum við svo við æfingu á sunnudagsmorgnum í KA húsinu fyrir krakka á aldrinum 5-8 ára ásamt því að eldri iðkendur hafa nýtt tímann sem aukaæfingu.

Af mótamálum er það að frétta að badmintonfélögin sem starfa í Eyjafirði halda svokallað Norðurlandsmót í apríl, í fyrra var mótið á Siglufirði og á þessu ári verður það hjá Samherjum í Eyjafjarðasveit.
Akureyrarmót var haldið í Höllinni í maí þar sem keppt var í öllum aldursflokkum og var mótið opið öllum Akureyringum.
Í byrjun október var svo í annað sinn haldið unglingamót í KA húsinu þar sem voru mætt til leiks um 100 ungmenni frá 8 félögum þar sem spilaðir voru rúmlega 200 leikir.
Mótið tókst mjög vel og eru stóru félögin á höfuðborgarsvæðinu farin að gera ráð fyrir þessu móti sem föstum lið í sinni keppnisdagskrá.

Þjálfarar hjá TB-KA eru Högni Harðarson (eldri hópar) og Sonja Magnúsdóttir (yngri hópur).

Af tennis innan KA er það að frétta að aðalstjórn hefur sent ÍBA erindi þar sem lagt er til að byggðir verði upp 2 vellir nyrst og vestast á KA-svæðinu.
Við verðum því vonandi farin að spila tennis á svæðinu áður en langt um líður.

Þar með lauk upplestri á annálum deilda.

Kynnir þakkaði Sigríði fyrir lesturinn og kynnti næsta dagskrárlið sem var ræðumaður dagsins sem var enginn annar en Óskar Þór Halldórsson en hér á eftir fer ræða hans:

Óskar Þór HalldórssonHeiðursgestir KA, íþróttafólk og aðrir góðir gestir!
Í Orðabók Menningarsjóðs eru íþróttir þannig skilgreindar: Leikni, fimi, snilld og list. Önnur skilgreining er: „kerfisbundnar æfingar til að þjálfa líkamann – oft til að ná einhverjum tilsettum árangri, setja met o.þ.h.“
Þetta er annars vegar víð skilgreining á hugtakinu íþróttir, og við getum sagt sem svo að undir hana heyri flestar daglegar athafnir fólks, og hins vegar lýtur hin þrengri skilgreining að því að þjálfa líkamann og gildir þá einu í hverju sú hreyfing er fólgin; að spila fótbolta, fara út að skokka, bregða sér á gönguskíði eða ganga á fjöll. Allt er þetta hreyfing eða íþrótt sem er til þess fallin að rækta líkamann – bæði líkamlega og andlega.

Skilin milli almennings- og keppnisíþrótta eru oft ekki glögg. Vissulega setja margir sér það takmark að verða betri í dag en í gær í sinni íþrótt og sumir stefna á toppinn – að verða afreksíþróttamenn í fremstu röð. En bróðurpartur fólks ræktar líkamann og tekur þátt í íþróttum til þess að styrkja sína heilsu og láta sér líða vel.

Því fer betur að Íslendingar eru nokkuð duglegir að hreyfa sig – hvort sem er með því að fara á skipulagðar íþróttaæfingar á hendi íþróttafélaga, fara í ræktina eða út að ganga. En betur má ef duga skal og það er rík ástæða til þess að hafa nokkrar áhyggjur af þróuninni hér á landi.
Þjóðin er hægt og bítandi að þyngjast, þrátt fyrir allar líkamsræktarstöðvarnar og íþróttaæfingarnar. Þótt á því séu að sjálfsögðu mýmargar undantekningar, sem betur fer, er það þó staðreynd að alltof mörg börn og unglingar eru langt yfir kjörþyngd. Ef vandamálið byrjar strax í æsku, verður það nánast óviðráðanlegt þegar lengra er komið á lífsleiðinni. Þetta vitum við allt saman og við höfum áhyggjur af þessu. Þetta er lífsstílsvandamál á Íslandi, velmegunarvandamál mitt í öllu krepputalinu.
Sérfræðingar hafa ekki á þessu eina rétta lausn, því ef svo væri, væri vitaskuld fyrir löngu búið að leysa vandamálið. En það virðist þó blasa við að ein af skýringunum liggi annars vegar í óhollu mataræði og hins vegar hreyfingarleysi. Tölvurnar og snjallsímarnir eru ákveðnir sökudólgar, það verður bara ekkert horft framhjá því. Þessi nútímatækni, svo góð sem hún er, á sér þessar skuggahliðar. Krakkar og auðvitað líka þeir sem eru eldri eru þrælar internetsins, facebook og snapchat, að ekki sé talað um alla tölvuleikina. Það eru bara einfaldlega alltof margir haldnir tölvufíkn á háu stigi. Tölvan eða snjallsíminn fangar athyglina. Og í þetta fer mikill tími. Og það á sér stað lítil hreyfing á meðan.

Á liðnu hausti urðu stjórnendur Verkmenntaskólans þess áskynja að einn dag hrapaði mæting nemenda í skólann. Þennan tiltekna dag vantaði undarlega marga nemendur í fyrstu tímana að morgni dags. Menn klóruðu sér í hausnum yfir þessu og leituðu skýringa. Og hana var að finna í því að kvöldið áður hafði verið opnað fyrir aðgang á netinu að tölvuleik, sem margir höfðu beðið með eftirvæntingu. Og ungdómurinn beið við tölvuna, fullur eftirvæntingar, og síðan var setið við langt frameftir nóttu. Skólinn að morgni dags varð að víkja fyrir þessum sýndarveruleika. Þetta dæmi er í hnotskurn sá veruleiki sem við er að glíma.

Ég heyri það alltof oft þegar miður fer í einhverju er lýtur að uppeldi barna að skólinn standi sig ekki. Þetta er argasta öfugmæli. Allt byrjar þetta að sjálfsögðu inni á heimilunum. Eða er það ekki fyrst og fremst heimilanna að ala upp börnin? Og er það ekki fyrst og fremst heimilanna að leggja línur með mataræði og tölvunotkun, svo dæmi séu tekin? Jú, ég vil halda því fram. Ábyrgð okkar sem foreldra er mikil og það hlýtur að hafa eitthvað farið úrskeiðis þegar skoðuð eru línurit þar sem kemur fram svart á hvítu að þjóðin þyngist ár frá ári og einkanlega er þessi þróun ógnvænleg hjá börnum og unglingum. Íslendingar munu vera orðnir feitasta þjóð Evrópu. Verður það ekki að teljast heldur vafasamur heiður?

En hvað er þá til ráða? Ég vildi að ég gæti svarað ykkur og ég held að það geti ef til vill enginn komið með hið eina rétta svar. Sumum er legið á hálsi að vera gamaldags og á móti nútímatækni ef varað er við of mikilli tölvunotkun. En gott og vel. Það verður þá bara svo að vera. Ég sé fáa aðra kosti en að fólk haldi vöku sinni áfram, nú sem aldrei fyrr.

Og þá komum við að íþróttafélögunum. Hvaða hlutverki gegna þau í þessu? Almennt er hægt að orða það svo að íþróttahreyfingin vilji stuðla að hreyfingu fólks, ekki síst barna og unglinga, á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Síðan geta menn tekist á um það hvort íþróttaæfingarnar eigi einungis að hafa það að leiðarljósi að börnin æfi sína íþrótt eða hvort blanda eigi saman æfingum og keppni. Það er eilífðar þrætuepli og verður seint leitt til lykta. Þegar upp er staðið er það væntanlega það sem máli skiptir að börnin fái markvissa hreyfingu og efli sig um leið sem einstaklingar.

Í því ljósi sem ég hef hér að framan getið er og verður hlutverk íþróttafélaga almennt mjög mikilvægt í náinni framtíð. Í þau ár sem ég hef komið að íþróttastarfi barna og unglinga, fyrst og fremst hér í KA, hef ég fundið að flestir hafa mikinn og góðan skilning á mikilvægi starfsemi íþróttafélaga. En ég hef líka fundið hið gagnstæða. Það hefur hryggt mig að heyra fólk sem starfar í okkar umboði á vettvangi stjórnmálanna tala af fullkomnu skilnings- og þekkingarleysi um það starf sem íþróttafélög inna af hendi.  Ég hef sagt að íþróttafélög leggi ekkert síður en leik- og grunnskólar sín lóð á vogarskálar uppeldis barna og unglinga og því eru þau gríðarlega mikilvægur hlekkur í þessari keðju. Þeir sem halda öðru fram, hafa ekki kynnt sér málin eða tala gegn betri vitund. Þeir sem agnúast stöðugt út í starfsemi íþróttafélaga  og virðast nærast á því að tala þau niður eru oftar en ekki þeir sömu og hafa ekki kynnt sér og hafa heldur engan áhuga á því að kynna sér fjölbreytt íþróttastarf og gildi þess fyrir fólkið í landinu og samfélagið í heild sinni. En að sjálfsögðu er starf íþróttafélaga ekki yfir gagnrýni hafið – við getum og eigum alltaf að stefna að því að auka fagmennskuna og gera betur í dag en í gær.
Takk fyrir.

Kynnirinn, Siguróli Magni Sigurðsson tók því næst til við að kynna íþróttamenn deilda og félagsins með eftirfarandi orðum:
Þá er komið að því sem margir hafa beðið spenntir eftir en innan skamms mun ég tilkynna hver það er, sem var valinn íþróttamaður KA árið 2013. Þrjár af deildum KA hafa tilnefnt íþróttamann úr sínum röðum  til kjörsins enn hinn sami er íþróttamaður sinnar deildar. Íþróttamenn deildanna fá bikar til eignar frá fyrrverandi formönnum félagsins.
Þá vil ég biðja þá íþróttamenn sem tilnefndir eru að koma hingað upp þegar nafn þeirra er lesið.

Ævarr Freyr Birgisson er íþróttamaður Blakdeildar árið 2013.
Ævarr er fæddur 16. nóvember 1996. Ævarr hefur lagt stund á blakíþróttina allt frá sex ára aldri og náð mjög góðum árangri. Hann spilar nú með 2. flokki og meistaraflokki karla og hefur verið einn af lykilmönnum liðanna á árinu.  Ævarr varð bikarmeistari í 2. og 3. flokki síðasta vetur og náði góðum árangri með meistaraflokki. Ævarr var einnig valinn efnilegasti leikmaður Mikasadeildar BLÍ í vor. Þá tók hann þátt á Norðurevrópumóti fyrir hönd Íslands með U17 og U19 ára landsliðum Blaksambandsins. Við skulum klappa vel fyrir Ævari.

Birta Fönn Sveinsdóttir er íþróttamaður Handknattleiksdeildar árið 2013.
Birta Fönn Sveinsdóttir er fædd árið 1996 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið einn af burðarásunum í úrvalsdeildarliði KA/Þórs í handbolta það sem af er vetri. KA/Þór tók þátt í utandeild kvenna síðasta vetur, og vann hana. Þar var Birta í aðalhlutverki, þrátt fyrir að vera aðeins nýorðin 17 ára gömul. Þá hefur hún einnig leikið fyrir hönd U-18 ára landsliðs kvenna og keppti með því í undankeppni Evrópumótsins þar sem hún skoraði 11 mörk í þremur leikjum.  Við skulum klappa vel fyrir Birtu

Hallgrímur Mar Steingrímsson er íþróttamaður knattspyrnudeildar árið 2013.
Hallgrímur sem er á 24. aldursári kom til liðs við KA frá uppeldisfélagi sínu Völsungi árið 2009.
Hallgrímur er varafyrirliði meistaraflokks og á að baki 90 leiki fyrir KA og hefur skorað í þeim 28 mörk. Hallgrímur var gríðarlega mikilvægur KA liðinu í sumar og reyndist andstæðingum sínum oft erfiður ljár í þúfu. Hann skoraði 7 mörk og gaf 8 stoðsendingar þrátt fyrir að vera meiddur hluta tímabilsins. Hallgrímur var útnefndur knattspyrnumaður KA á lokahófi knattspyrnudeildar síðasta haust ásamt því að hópur stuðningsmanna valdi hann einnig besta leikmann liðsins.

Nú munu fyrrverandi formenn KA afhenda þessu glæsilega íþróttafólki bikar til eignar.

Íþróttamenn deilda
Hallgrímur Mar, Birta Fönn og Ævarr Freyr

Íþróttamaður KA fær einnig eignarbikar frá fyrrverandi formönnum KA og síðan glæsilegan farandbikar sem Arion Banki gaf fyrir nokkrum árum. Það eru þau Hrefna G. Torfadóttir og Hermann Sigtryggsson sem munu afhenda íþróttamanni KA þessa glæsilegu verðlaunagripi.
Þá er komið að því...

Íþróttamaður KA árið 2013 er Birta Fönn Sveinsdóttir!

Íþróttamaður KA 2013

Í sumar varð ljóst að KA/Þór myndi taka þátt í úrvalsdeildinni á nýjan leik eftir eins árs fjarveru. Liðið hefur farið ágætlega af stað í vetur og hefur krækt í fleiri stig en nokkur þorði að vona í haust. Liðinu var spáð langneðsta sæti deildarinnar en er sem stendur 9.-11. sæti með 5 stig.

Birta hefur leikið stærstan partinn úr öllum 10 leikjum vetrarins með liðinu sem vinstri skytta.  Hún hefur skorað yfir 30 mörk í þeim, ásamt því að leika stórt hlutverk í vörninni. Í fyrsta leik liðsins í vetur, sem var að sama skapi fyrsti leikur Birtu í efstu deild, gerði hún sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í naumu tapi gegn Selfossi. Að margra mati hefur Birta tekið stökkið úr því að vera efnilegur leikmaður í það að vera leikmaður, sem að þjálfarar hinna liðanna leggja áherslu á að stoppa. Þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára er hún farin að vekja á sér athygli í Olís-deild kvenna. Þá er vert að nefna að Birta er enn gjaldgeng með 3. flokki KA/Þórs og leikur með þeim alla leiki.
Birta Fönn er frábær fyrirmynd fyrir fjölmargar ungar og efnilegar handboltastúlkur, sem æfa hjá handknattleiksdeild KA.

Eftir að Hermann Sigtryggsson hafði afhent Birtu Fönn formannabikarinn til eignar og Hrefna, formaður hafði afhent henni farandbikarinn sleit kynnir samkomunni með þessum orðum: Nú er formlegri dagskrá lokið og vil ég bjóða ykkur, kæru KA menn, að njóta veitinga sem eru hér á svölunum fyrir neðan okkur. Borðin eru nánast að svigna undan tertum svo ég vona að þið séuð svöng. Áfram KA!

Glæsilegt veisluborð

Hér er hægt að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá afmælishátíðinni.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband