KA meistari eftir sigur á Grindavík

Fótbolti
KA meistari eftir sigur á Grindavík
Davíð Rúnar fyrirliði lyftir bikarnum á loft

KA tók í gær á móti Grindvíkingum í uppgjöri toppliða Inkasso deildarinnar. Bæði lið höfðu tryggt sér sæti í efstu deild að ári en KA gat með jafntefli eða sigri tryggt sér efsta sæti deildarinnar og þar með fengið að lyfta Deildarmeistarabikarnum á heimavelli.

KA 2 - 1 Grindavík
0-1 Andri Rúnar Bjarnason ('43)
1-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('69) Stoðsending: Hrannar
2-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('72, víti)

Það hellirigndi á Akureyri í gær og áttu menn því í nokkrum vandræðum á vellinum en okkar menn leystu þann vanda betur og voru sterkari aðilinn. Strax á fyrstu 10 mínútum leiksins reyndu Almarr, Aleksandar og Elfar Árni fyrir sér en inn vildi boltinn ekki.

Áfram héldu okkar menn að vera líklegri og stjórnuðu leiknum en það voru þó gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins þegar Andri Rúnar Bjarnason kom boltanum í netið eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiksins.

Staðan 0-1 í hálfleik sem þýddi það að gestirnir voru að minnka forskotið á toppnum niður í 1 stig fyrir lokaumferðina. En hléið gerði okkar mönnum gott og þeir bættu í og héldu áfram að stjórna leiknum. Áfram komu mörg fín færi en herslumuninn vantaði til að jafna leikinn.

Á 69. mínútu átti Hrannar Björn góða fyrirgjöf sem Ásgeir Sigurgeirsson gerði vel í að stýra að markinu og Kristijan í marki gestanna réð ekki við skallann. Staðan orðin 1-1 og út brutust gríðarleg fagnaðarlæti enda markið verðskuldað og kom liðinu aftur í lykilstöðu í deildinni.

Stuttu síðar fékk Hallgrímur Mar góða sendingu inn fyrir og var tekinn niður innan teigs af Björn Bryde. Vítaspyrna dæmd og Hallgrímur tók hana sjálfur og skoraði af öryggi, allt í einu var staðan því orðin 2-1.

Það var svo ekki fyrr en um 5 mínútur lifðu leiks sem að líf glæddist í gestina og reyndu þeir hvað þeir gátu til að jafna metin en þeir þurftu 2 mörk til að halda lífi í titilvonum sínum. Þó Aleksandar Trninic hafi fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt gekk það ekki hjá Grindvíkingum og KA vann sannfærandi 2-1 sigur sem tryggði þar með titilinn.

Davíð Rúnar Bjarnason fyrirliði tók því við bikarnum á heimavelli og var gleðin svo sannarlega við völd á Akureyrarvelli enda 12 ár síðan KA lék í efstu deild.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Sótti vítaspyrnu sem hann skoraði sjálfur úr og var mjög ógnandi. Frábært að sjá til Grímsa í þessum mikilvæga leik og áttu gestirnir í miklum vandræðum með hann.)

KA stendur því uppi sem sigurvegari í næst efstu deild í ár en þetta er í annað skiptið í sögu félagsins sem það gerist en það gerðist einnig árið 1980. Þetta er hinsvegar í sjötta skiptið sem liðið tryggir sér sæti í efstu deild frá því að byrjað var að leika í fleiri en einni deild.

Smelltu hér til að skoða tölfræði um gengi KA í knattspyrnunni.

Enn er þó einn leikur eftir en það er útileikur gegn nágrönnum okkar í Þór á Þórsvelli laugardaginn 24. september, sjáumst þar, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband