Þór/KA Íslandsmeistari 2017! (myndir)

Fótbolti
Þór/KA Íslandsmeistari 2017! (myndir)
ÍSLANDSMEISTARAR 2017! (mynd: Sævar Geir)

Kvennalið Þórs/KA tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn eftir 2-0 sigur á FH á Þórsvelli fyrir framan stóran fjölda áhorfenda. Sigurinn var torsóttur en stelpurnar sýndu gríðarlegan karakter að halda áfram til enda og tryggja titilinn.

Þór/KA 2 - 0 FH
1-0 Sandra María Jessen ('74)
2-0 Sandra Mayor ('78)

Fyrir fram var ljóst að með sigri í dag myndi Íslandsmeistaratitillinn koma norður en annars gæti Breiðablik stolið titlinum með sigri í sínum leik. Breiðablik vann sannfærandi 4-0 sigur á Grindavík og því var aukin pressa á okkar liði þegar leið á leikinn.

Þór/KA var sterkari aðilinn í leiknum en gekk erfiðlega að skapa sér færi, spennustigið var mjög hátt og því kannski eðlilegt að leikurinn færi rólega af stað. Á 28. mínútu fékk Sandra María Jessen ágætt færi uppúr hornspyrnu en hún þrumaði í stöngina og út.

Skömmu fyrir hálfleik átti Sandra Mayor aukaspyrnu sem einnig fór í stöngina og út og þá fékk Hulda Ósk Jónsdóttir úrvalsskallafæri eftir sendingu frá Önnu Rakel en boltinn fór framhjá. Það var því markalaust í hálfleik og smá titringur í stúkunni enda þurftu stelpurnar sigur til að landa þeim stóra.

Síðari hálfleikurinn hófst rétt eins og sá fyrri og var lítið um færi, en stelpurnar héldu stöðugt áfram að leita að markinu sem þær þurftu og það kom loks á 74. mínútu. Anna Rakel átti fyrirgjöf og fyrirliðinn hún Sandra María gerði virkilega vel í að teygja sig í boltann og reka hann yfir línuna.

Út braust magnaður fögnuður enda gríðarlega mikilvægt mark og vægast sagt langþráð. Að sjálfsögðu héldu stelpurnar svo áfram að þjarma að gestunum og Borgarstjórinn sjálfur hún Sandra Mayor tvöfaldaði forystuna skömmu síðar þegar hún sýndi snilli sína með því að sóla tvo varnarmenn og skora svo framhjá Lindsey í marki FH.

Þarna var orðið ljóst í hvað stefndi og Íslandsmeistaratitillinn stefndi norður. Ekki voru fleiri mörk skoruð og lokatölur því 2-0. Stelpurnar hafa verið algjörlega frábærar í sumar og verið á toppi deildarinnar frá fyrsta leik, að segja að þær eigi þennan titil skilið er vægt til orða tekið.


Smelltu á myndina til að sjá fleiri myndir Sævars Geirs frá fögnuði stelpnanna

Í rauninni er það miklu skemmtilegra að vinna Íslandsmeistaratitilinn í dag með smá spennu, fyrir vikið mætti mikill fjöldi fólks á völlinn til að styðja liðið og það eiga stelpurnar svo sannarlega skilið. Algjörlega frábært afrek og við óskum liðinu hjartanlega til hamingju með titilinn!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband