Þór/KA tapaði í Grindavík

Fótbolti
Þór/KA tapaði í Grindavík
Ekki tókst að klára dæmið í dag (mynd: Sævar Geir)

Þór/KA sótti Grindavík heim í næst síðustu umferð Pepsi deildar kvenna í fótboltanum. Fyrir leikinn var ljóst að með sigri myndi liðið tryggja sér sjálfan Íslandsmeistaratitilinn en Grindavíkurliðið hefur átt flotta leiki að undanförnu og var því ljóst að sigur í leiknum yrði sko ekki gefinn.

Grindavík 3 - 2 Þór/KA
1-0 Helga Guðrún Kristinsdóttir ('4)
1-1 Sandra María Jessen ('5)
2-1 Carolina Mendes ('47)
2-2 Sandra Mayor ('64)
3-2 María Sól Jakobsdóttir ('81)

Ekki voru aðstæðurnar í Grindavík þær bestu en talsverður vindur var á svæðinu sem hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á knattspyrnuiðkun. Þrátt fyrir það þurftum við ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins og það gerði Helga Guðrún Kristinsdóttir fyrir heimastúlkur eftir að Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í marki Þór/KA hafði mistekist að klófesta boltann.

En það býr gífurlegur karakter í okkar liði og jöfnunarmarkið kom innan við mínútu síðar. Stelpurnar geystust upp völlinn, Sandra Mayor átti góða sendingu á Söndru Maríu Jessen sem kláraði af sinni alkunnu snilld og staðan orðin 1-1 eftir einungis 5 mínútna leik!

Bæði lið sóttu af krafti og var leikurinn ansi fjörugur þrátt fyrir mikla baráttu við þungan völlinn og vindinn kröftuga. Ekki urðu mörkin þó fleiri í fyrri hálfleik og ljóst að okkar stelpur myndu þurfa á öllu sínu að halda til að klára titilinn hér í Grindavík.

Sandra Mayor var líkleg til að koma Þór/KA yfir strax í upphafi síðari hálfleiks þegar hún þrumaði í slánna og yfir úr aukaspyrnu en þess í stað brunuðu heimastúlkur í sókn og Carolina Mendes skoraði eftir góða sendingu frá Lindu Eshun. Aftur voru því okkar stúlkur lentar undir og með bakið uppvið vegg.

Borgarstjórinn hún Sandra Mayor jafnaði hinsvegar metin á 64. mínútu þegar hún náði boltanum eftir hornspyrnu og hún setti boltann laglega í netið. Staðan orðin 2-2 og Mayor sem á afmæli í dag fagnaði að hætti hússins.

Í kjölfarið sóttu okkar stúlkur af krafti og var ljóst að þær ætluðu sér sigurinn í dag enda draumur að klára titilinn í dag. En það voru hinsvegar Grindavíkurstúlkur sem skoruðu næsta mark og það á 81. mínútu. María Sól Jakobsdóttir fékk boltann ein gegn Bryndísi Láru sem kom engum vörnum við og staðan því 3-2 fyrir Grindavík.

Áfram hélt stórsókn Þórs/KA en því miður tókst stelpunum ekki að jafna metin þriðja sinni og 3-2 tap því staðreynd. Á sama tíma vann Breiðablik 0-2 sigur á Stjörnunni og fyrir lokaumferðina er því ljóst að forskot Þórs/KA er orðið 2 stig og töluverð spenna enn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Stelpurnar eru þó enn með pálmann í höndunum en við þurfum klárlega að fjölmenna á Þórsvöll á fimmtudaginn þegar FH kemur í heimsókn og styðja okkar lið. Stelpurnar hafa verið frábærar í sumar og eiga Íslandsmeistaratitilinn skilinn, sjáum til þess að þær landa þeim stóra, sjáumst á föstudaginn og áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband